5 EINFÖLD RÁÐ TIL AÐ KOMA ÞÉR Í FORM

Hvernig gat það gerst á einni nóttu að gott mataræði varð flóknara en Brexit? Það virðist enginn komast lengur í gegnum daginn án þess að skoltinn á þeim flækist óvart í einhvern sykur sem hefur verið klæddur í felulitina. Svo böðum við öll þarmaflóruna daglega uppúr einhverjum gervi- og aukaefnum sem sífellt eru að fá nýtt nafn og númer. Við hreinlega vöðum bara í villu í mataræðinu, jafnvel þótt við séum í góðri trú. Þetta er staðan.

Það er ekki nóg með að matvælaiðnaðurinn sé búinn að flækja lífið fyrir okkur með þessum falda sykri og endalausu nafnauppfærslum á næringargjöfunum, þá er búið að markaðsvæða mataræði svo mikið að annar hver iðnaðarmaður og þriðja hver miðaldra móðir úti á landi eru komin á ketó-mataræði – eða þau halda það allavega. Svo eru gerðar undantekningar á ketó-inu þegar Ikea er að gefa grillaðar pullur útá plani eða þegar kökuafgangar helgarinnar berast á vinnustaðinn. Eftir 3 vikur er þetta ketó mataræði jafn lifandi og Hemmi Gunn er í dag.

Svo er annar hópur á steinaldarfæði. Hver vill líta út eins og Fred Flinstone? Heldur einhver í alvöru að það breyti öllu að sleppa því að borða hreint smjör en á sama tíma stöffa sig af ávöxtum? –Ofurgísli skilur ekkert í þessu.

Hættum að flækja þetta of mikið og höldum okkur við einfaldleikann – einfalt er best. Einfaldleikinn stuðlar líka að því að fólk heldur sig við efnið og raunverulega breytir mataræðinu sínu til frambúðar. Þetta er lífsstíll og hann er bara ekkert leiðinlegur. Of miklar breytingar á mataræði á einni nóttu endar í flestum tilvikum á einn hátt; það endar – skjótt.

Ofurgísli að gæða sér á krókódílspjóti

Ofurgísli er með nokkrar mjög einfaldar þumalputtareglur í mataræðinu sem alveg svínvirka fyrir iðnaðarmenn, mæður og jafnvel feður í fæðingarorlofi sem vilja taka til hjá sér í mataræðinu og raunverulega sjá árangur. Engar drastískar breytingar sem valda verkkvíða vegna allsherjar tiltektar í ísskápnum. Þetta eru einfaldar en skilvirkar aðgerðir.

Ykkar maður lofar því að þið sjáið árangur ef þessum einföldu þumalputtareglum er fylgt – það hefur margsýnt sig. Árangurinn ætti ekki að vera síðri en ef þið kaupið ykkur nýjustu matarkúrsbókina í Hagkaup. Hún endar hvort sem er uppí skáp – á bakvið hveitið og dósamatinn.

1. Skammtastærðir

Þetta er lykilatriðið af þeim öllum í reynslubók Ofurgísla. Ekki borða of mikið í einu. Það kemur alltaf jafn mikið á óvart hvað 150-200 gr. af kjöti, kjúlla eða fisk virðist lítið þegar það er komið á diskinn – en það er rétti skammturinn fyrir meðalkarlmanninn sem langar að trimma sig til. Ekki hika við að draga fram vigtina til að fá tilfinninguna fyrir því hvernig 200 gr. af hakki lítur út á diski. Dömur, því miður er ykkar skammtur aðeins minni, 120-150 gr. svona almennt séð.

2. Takmarkið kolvetnin eftir klukkan 18:00

Ég veit að það ríkir almennt bann við að tala niður til kolvetna þessa dagana. Íþrótta- og næringaspekúlantar geta orðið óðir ef kolvetni eru ekki lofuð og dáð í hverskyns ræðu og riti. Menn móðgast jafnvel fyrir hönd kolvetnanna sinna, einsog þetta séu börnin þeirra. Kolvetnin eru almennt ágæt – bæði á bragðið og fyrir líkamann. Hins vegar erum við að borða alltof mikið af þeim. Kolvetnin gefa okkur þessa orku sem við þurfum til að negla æfinguna, klára útihlaupið eða hjólatúrinn um helgar.

Við þurfum hinsvegar ekkert á þessari orku að halda þegar Netflix er farið að rúlla á skjánum fyrir framan okkur á kvöldin. Það fer ekkert bensín í það og umfram orkan úr kolvetnunum gerir ekkert nema viðhalda þessum aukakílóum sem ætlunin er að losna við.

Fáið ykkur grænmeti með kvöldmatnum í staðinn fyrir kartöflur, grjón, pasta og brauð. Grænmeti þarf ekki að vera boring fyrir kjötétandi fólk. Það er hægt að leika sér með allskonar grænmeti svo úr verður hin mesta veizla. Sem dæmi er hægt að skera rauðrófur, kúrbít, gulrætur og butternut grasker í þunnar sneiðar og ræmur. Pensla með smá olíu. Strá salti og pipar yfir. Henda inní ofn og láta bakast og jafnvel setja mikinn yfirhita. 

Þá er ónefnt rauðkál, hvítkál, blómkál og brokkolí sem hægt er að mýkja á pönnu með góðum árangri. Það eru því margir góðir kostir í stöðunni, þetta er bara spurning um að nenna og vera vakandi.

Ekki hika við að hafa samband og fá frekari upplýsingar um þjálfunina

3. Helltu sykurgosinu ofaní klósettið. Geymdu bjórinn við stofuhita

Það bara gengur ekki upp í nútímasamfélagi að sulla í sig og yfir sig sykruðu gosi einsog það sé bara eðlilegur hlutur. Það eru sjálfu sér ekki margar risaeðlur eftir en það er þó ótrúlega margir ennþá sem reglulega hella í sig hvíta sykrinum í hádeginu á miðvikudegi eða í sófanum á föstudagskvöldi. Það bara gengur ekki upp. Alltaf þegar Ofurgísli sér fólk drekka sykrað gos vonar hann að sá hinn sami missi dósina yfir sig þannig að það hellist úr henni á fötin.

Og til þeirra sem vilja fá sér Coke, Pepsi eða annað gos, en segja að þeim finnist sykurlausu útgáfurnar bara alls ekki eins góðar og þess vegna leyfi þér sér bara sykurgosið. -Það er algjörlega glórulaust, veikleikamerki og jafnvel manndómsleysi! Það kann vel að vera að sykurgosið sé eitthvað betra á bragðið, allavega öðruvísi. Pizza er líka betri en soðin egg og rjómaís er almennt betri en rautt epli. Það liggur hinsvegar enginn í pizzu og ís alla daga – jafnvel þótt það væri betra en allt annað. Það sama á við sykurgos vs. sykurlaust gos. Sættið ykkur við þetta og ef þið bara getið ómögulega komið Pepsi Max niður, fáið ykkur bara vatn. Það er líka best.

Sjá einnig: Hollasti óholli maturinn

Loks ætti að þurfa að nefan bjórinn í þessu samhengi, en það er gríðarleg fylgni milli reglulegs bjórsumbls og óþarfa aukakílóa. Þeir sem fá sér reglulega bjór á virkum dögum, oft fleiri en einn, geta gleymt því að taka sig vel út á ströndinni eða sundlaugarbakkanum í Laugardal.

4. Snemma í háttinn – forðast aðstæður

Eitt besta ráðið til að losna við aukakílóin er að fara snemma í háttinn. Við vitum alveg hvað gerist um klukkan tíu á kvöldin og jafnvel fyrr. Allir skápar eru opnaðir og skoðaðir í þaula til að velja besta mönsið með Netflixinu. Þetta nart endar jafnvel í hálfum dagskammti af hitaeiningum sem bara hreinlega hverfa ofan í sófann. Með því að fara snemma í háttinn erum við að forðast aðstæður sem nútímamaðurinn ræður ekkert við þegar hann hefur komið sér í þær. Fullir skápar og skúffur af fáránlega góðu stöffi sem bíður eftir að verða tekið til heimaslátrunar í sófanum við fyrsta tækifæri.

Það er því allt sem mælir með því að fara snemma að sofa, því þá minnkar þetta nart sem oft skilur á milli þess hvort aukakílóin haldist, fari eða jafnvel aukist. Þá er ónefndir kostir þess fyrir allt kerfið að fá góðan svefn og meira segja fyrir brennslukerfi líkamans. Læt þá umræðu eiga sig þangað til síðar eða bara bendi á Internetið þar sem þetta topic er heitt þessa dagana. 

5. Amínósýrur eftir kvöldmat – prótein fyrir svefninn

Þrátt fyrir að snemmbúin háttatími geti komið í veg fyrir nart er alveg sennilegt að okkur langi að fá okkur hressingu eftir kvöldmat. Það er í sjálfu sér eðlilegt, gott og blessað. Þá er hinsvegar mikilvægt að velja rétt – velja betri kost fram yfir þann verri. Ekki stökkva á kexskápinn eða laumast í leyni nammi boxið. 

Það er tvennt sem Ofurgísli getur sérstaklega ráðlagt í þessu samhengi. Annarsvegar BCAA amínósýrur án koffíns og án sykurs. Það eru til allskonar bragðefni og ýmsar útfærslur af þessu fæðubótarefni. Best er að fá sér stórt glas, fylla með vatni og klökum og hræra í einn ískaldan drykk. Það er svo merkilegt með þessar amínósýrur að þær ná að slökkva/minnka nartþörfina alveg heilan helling. Þetta leynitrikk hefur Ofurgísli notað í mörg ár.

BCAA aminósýrur án koffíns og sykurs

Hinsvegar er það Cassein próteinið. Það hefur komið í staðinn fyrir marga snakkpokana og Vesturbæjarísana í gegnum tíðina. Cassein prótein er hægmeltandi prótein, gjarnan aðeins þykkara og hefur oft sömu áferð og súkkulaðibúðingur (alltsvo, ef það er súkkulagibragð af því). Margir vilja meina að það sér jafnvel betra en ekki að fá sér Cassein prótein fyrir svefninn, það hjálpi til við brennslu yfir nóttina. Ofurgísli hefur skrifað lærða grein um Cassein prótein og hvernig það má meðhöndla svo úr verði hin mesta veizla. Sjá hér: KVÖLDSNARLIÐ

Hættum að flækja hlutina. Beitum almennri skynsemi og sýnum smá sjálfsaga – það skilar sér á endum.

Ofurgísli, maður fólksins.
Kópavogur, 16. mars 2020.