Einsog hjá öllum fegurðardrottningum þá eru ferðalög eitt helsta áhugamál Ofurgísla – og lestur góðrar bóka. Ofurgísli hefur reyndar ekki gaman af útivist og fjallgöngum einsog hinar fegurðardrottningarnar. Til að sinna þessa áhugamáli fóru OG og Hella í vikuferð til Amsterdamborgar núna um miðjan júlí. Ferðin var vel heppnuð og allar áhyggjur um að 8 dagar í Hollandi væri of langur tími voru algjörlega óþarfar. Þessi borg er þrælmögnuð fyrir margra hluta sakir og er óhætt að segja að þarna sé eitthvað fyrir alla.
Það er auðvelt að týnast í Amsterdam. Kristófer Kólumbus gæti hæglega orðið áttaviltur þarna með nýja GPS tækið sitt. Það er ákveðinn sjarmi yfir því að villast aðeins – allavega á meðan það eru ennþá veitingastaðir í nágrenninu. Próteinhausar verða svangir á tveggja tíma fresti og þurfa þá sína næringu. Annars fara ýmsar ranghugmyndir af stað í hausnum um katabólíkst ástand líkamans sem leiðir til vöðvarýrnunar og að á endanum veslist maður upp og deyi. Þetta þekkja allir Próteinhausar. Þrátt fyrir allt tókst mér að halda lífi þarna úti og var vel haldinn allan tímann – í góðum málum í góðum holdum. Borðaði mikið, drakk vel, lyfti lóðum og naut lífsins. Þannig eiga frí að vera. Eftir að hafa verið grjótharður í mataræði og æfingum í marga mánuði á að gera vel við sig. Það hafa allir gott af því.
Okkur skorti ekki verkefnin í Hollandi og afrekuðum við heilan helling á sama tíma við tókum því rólega. Það var geggjað að taka piknik í Vondelpark og Museumplein í geggjuðu veðri. Ég fékk mér að sjálfsögðu nauta carpaccio með truffluolíu og nýrúllað sushi ásamt öðru góðgæti – aðeins það besta fyrir OG.
Ég var í skóla í Rotterdam árið 2008 og gat því ekki annað en kíkt yfir og heilsað öllu fólkinu mínu. Það var gaman að kíkja aftur á gamlar slóðir og þykjast þekkja og vita allt um staðinn. Benda í allar áttir og segja gamlar hetjusögur af sjálfum mér.
Við tókum líka tvær grjótharðar æfingar í Amsterdam. Mér finnst alltaf gaman að sinna áhugamálinu í útlöndum og reyni alltaf að komast á æfingu þegar ég er í fríi. Það er líka gott að strjúka járnið og svitna eftir mikið át og sukk sem fylgir því að vera í fríi.
Loks komst ég að því að margir halda að Ísland hafi í raun unnið evrópumótið í fótbolta í sumar. Í huga evrópubúa eru strákarnir því sigurvegarar mótsins og í reynd réttir evrópumeistarar. Áfram Ísland.
Amsterdam skiptist í nokkur hverfi sem öll eru áhugaverð á sinn hátt þótt sum þeirra séu meira skemmtileg en önnur. Við fundum okkur best í hverfunum fyrir utan mesta túristamassann – De Pijp, Oost, Nine Streets og Jordaan hverfin. Rauða hverfið er auðvitað í meira lagi athyglisvert og svo er gamli bærinn algjörlega stappaður af túristum. Við leigðum okkur reiðhjól flesta dagana og brunuðum á milli staða einsog innfæddir. Það eitt og sér er fáranlega gaman og alltaf stutt í næringu, sem er auðvitað mikilvægt einsog áður greinir.
Reykjavík, 25. júlí 2016
-Ofurgísli, maður fólksins