Covid-19 er tík – það vita allir. Sturlaðir tímar – lýgilegir. Sem fyrr er raunveruleikinn óraunverulegri en skáldskapurinn. Engum siðlausum atvinnulygara hefði dottið í hug að kokka þessa stöðu upp; allsherjar íþrótta-, samkomu- og líkamsræktarbann. Og ömurlegt veður á sama tíma. Móðir Jörð er að rassskella okkur á beran bossann – og kannski eigum við það skilið? En, hér erum við stödd og hvað gerum við nú?
Ofurgísli er að sjálfsögðu hugsi einsog allir aðrir. Hvað er öfgaþjóðin Ísland að fara þyngjast mikið á þessum sóttkvíar-, einangrunar- og samkomubanntíma? Íþróttaheimar búnir að skella í lás og við þurfum ekki einu sinni að sækja okkur í matinn – allt sent heim að dyrum á meðan við slökum okkur uppí sófa.
Við höfum fátt betra að gera næstu vikurnar en að hafa það kósý heima og því fylgir nasl, nart og tíðar ísskápaheimsóknir. Merkilegt hvað við þurfum oft að kíkja í ísskápinn – bara svona til skoða inní hann og kanna hvort eitthvað óvænt leynist eða nokkuð hafi horfið úr honum. Eins og ísskápurinn sé eitthvað gæludýr sem þarf að sýna athygli og strjúka svo maður sé í náðinni hjá honum.
Það er í sjálfu sér eðlilegt að við viljum snakka okkur uppí sófa á svona tímum – finnst við eiga eitthvað gott skilið á milli þess sem við heyrum hamfarafréttir og snjóstormar dynja á okkur. Þá er líka mikilvægt að vera skynsamur og velja hollari kost fram yfir þann óhollari, án þess að því fylgi enn frekara lífsgæðatap en nú hefur orðið. Við bara getum ekki leyft Covid að komast upp með að bæta á okkur skvapi þegar hún hefur tekið af okkur flest allt annað eins og að fara í klippingu til að hressa uppá útlitið. Leyfum Covid ekki að komast upp með allt!
Það er nefnilega þannig að Covid-19 ákvað að það yrði ekki gefin afsláttur af hitaeiningum á meðan hún tæki yfir svæðið – hvorki þeim sem við brennum né innbyrðum. Covid er tík; ég sagði það í byrjun. Það er því sami hitaeiningafjöldi sem telur fyrir, á meðan og eftir Covid-19. Sorry.
Ofurgísli er maður fólksins og vill reyna að leggja sitt af mörkum svo þjóðfélagið verði ekki afvelta, með lækkaða grunnstemningu og í slæmu ásigkomulagi þegar sólin verður komin í hæstu stöðu. Hér eru því nokkur atriði, ábendingar og tillögur þegar kemur að mataræði sem hægt er að styðjast við og ætti að nýtast á þessum áhugaverðu tímum.
I. Velja hollari kost fram yfir þann óhollari. Þetta er ekki flókið á blaði en kann að þykja erfitt í framkvæmd. Klukkan er 21:00 og nart-mörðurinn er vaknaður. Í staðinn fyrir að detta í Bingó kúlur, Þykkvabæjarsnakk eða eðludrifna-Doritos-neyslu þá er alveg hægt að fara vægari leiðir sem hafa svipaðan eða sama árangur við að fæða nart-mörðinn. Hvernig væri að taka sælgæti náttúrunar, ferskt epli, skera í báta og jafnvel sáldra smá kanil yfir. Cassein próteinbúðingur er líka afbragðhugmynd hérna sem margir þekkja og styðjast við. Það er ofureinfalt, bara henda einni góðri skeið af súkkulaði Cassein próteini í stóran bolla, smá (bara smá) mjólk eða vatn útí og hræra í búðing. Í raun bæði hægt að borða kalt og heitt. Ofurgísli hefur skrifað lærða grein um heitan Cassein bíðing – sjá hér: www.ofurgisli.is/kvoldsnarlid/
Ef við viljum leyfa okkur aðeins meira er jafnvel hægt að poppa sitt eigið popp án olíu og aukaefna – í örbylgjuofninum á mettíma. Til þess þarf aðeins að eiga þessu mögnuðu popp skál frá Lékue – sjá HÉR. Þá þarf varla að nefna harðfiskinn í þessu samhengi öllu – hann er auðvitað kóngurinn.
II. Borðum hollan mat sem smakkast eins og óhollur. Vöfflur, pönnukökur, búðingur, súkkulaði muffins, kökur og kex. Allt hljómar þetta eins og matarplanið hjá Gauja litla þegar hann datt óvænt útaf sporinu. Þetta þarf hinsvegar ekki að vera óhollt ef þetta er gert í eldhúsinu heima með réttu hráefnin. Þvert á móti getur þetta orðið þrusuhollusta.
Sjá einnig – Ofsapróteinmúffur Ofurgísla
Sjá einnig – Próteinvöfflur með jarðaberjarjóma
Sjá einnig – Gulrótarkaka Ofurgísla
Ofurgísli hefur unnið með prótein pönnsur í mörg ár og er alltaf með þær í þróun. Undanfarin ár hefur uppskriftin þó verið keimlík – og hún er sturluð! Þessar pönnsur passa við öll tilefni. Morgunmat í miðri viku, sunnudags brunch, millimál, erfidrykkjur, kaffiboð og jafnvel þegar nart mörðurinn vaknar. Ofurgísli tekur sér stöðu við eldavélina í hverri einustu viku og jafnvel oftar til að útbúa þessa snilld. Uppskriftin er ofureinföld í grunninn en svo má alltaf leika sér með þetta og reyna að betrumbæta.
Uppskriftin er sirka svona og skilar um 6-7-8 ofurpönnsum, fer eftir þykkt (á pönnsum, ekki bakara).
5 heil egg eða ca. 350 gr. eggjahvítur ef rauðu er sleppt – 1 vel góð skeið Cassein prótein (Gold Standard) – C.a. 80 – 100gr. hveitikím – Dass af kanil – Vatn eftir þörfum – Ágætt að láta deigið standa í smá stund áður en bakað, ekki nauðsynlegt. Þetta eru 8-900 hitaeiningar í einni blöndu og svo bætist við það sem sett er ofan á. Gott að vera meðvitaður um það og hugsanlega deila með sér gleðinni á heimilinu.
III. Takmörkun kolvetni á þessum tímum – sérstaklega einföld. Það þarf næstum enginn á einföldum kolvetnum að halda næstu þrjár vikurnar á þessu landi – jafnvel lengur. Ég veit að einföld kolvetni eru æðisleg – en þetta er staðan. Heilbrigðisráðherra átti auðvitað að setja takmarkanir á neyslu einfaldra kolvetna samhliða hertu samkomubanni. Einföldu kolvetnin eru þrælgóð þegar við þurfum á góðu eldsneyti að halda fyrir alvöru átök en göngutúr og 25 armbeygjur kalla ekkert sérstaklega á að við smekkfyllum allar glýkógen byrðir líkamans með ofneyslu einfaldra kolvetna.
Það vita sennilega flestir í dag hvað telst til einfaldra kolvetna og því óþarfi að rekja það í löngu máli hér. Sykur er mamma einfaldra kolvetna og hann er til í allskonar formi. Internetið er smekkfullt af upptalningu á einföldum kolvetnum og mismunandi sykurstuðli eftir fæðutegundum. Undirritaður vísar því í alnetið varðandi nákvæma útlistingu og upptalningu að þessu leyti.
IV. Meðlæti með kvöldmatnum. Núna er rétti tíminn til að hvíla öll kolvetni með kvöldmatnum. Sleppum þessum kartöflum, líka sætu, hrísgrjónum, núðlum, pasta, brauði og öðru kolvetnaríku meðlæti. Í staðinn leikum við okkur með grænmetið. Það er hægt að gera ótrúlegustu hluti með rauðkáli, kúrbít, gulrótum, kínahreðkum og graskeri (butternut Squash) sem dæmi. Þetta eru góðir staðgenglar fyrir kolvetnaríkt meðlæti. Best er að skera þetta niður í sneiðar, kubba, búta eða hvað sem er. Drippa smá olíu yfir, sáldra salti og pipar yfir og dúndra inní ofn, jafnvel á grill stillingu og þá verður áferðin gjarnan stökk. Þetta slær alltaf í gegn – staðreynd.
V. BCAA Amínó-sýrur án koffíns og án sykurs. Það hefur reynst Ofurgísla gríðarlega vel í gegnum tíðina að fá sér stórt glas af BCAA Aminó-sýrum með góðu bragði þegar nart-mörðurinn ákveður á kíkja við. BCAA Aminó sýrur er stórsniðugar og hjálpa til við ýmislegt þegar kemur að heilsurækt. Svo er það ítrekuð og endurtekin reynsla undirritaðs að þær minnnka eða slökkva á nartþörfinni og því er þetta margfaldur sigur. Muna bara að hafa þetta án sykurs og án koffíns.
Kópavogur, 279 mars 2020
-Ofurgísli, maður fólksins