Í gömlu orðatiltæki hindúa segir: ,,Fyrstu þrjátíu ár ævinnar mótar maður venjur sínar. Síðustu þrjátíu ár móta venjurnar mann.”
Ég velti því stundum fyrir mér hvort það sé eitthvað vit í því að eyða svona miklum tíma í ræktinni. Gæti ég ekki verið að gera eitthvað annað og merkilegra við tímann – til dæmis fara í Byko eftir vinnu að skoða loftljós? -Svo bara ranka ég við mér í einhverju sveittu dropsetti með tilheyrandi pumpi og svita. Síðan mæti ég aftur á æfingu og það sama gerist. Af einhverjum ástæðum mæti ég alltaf aftur – það er eitthvað sem dregur mig alltaf aftur á æfingu. Og ég veit að þannig á það alltaf eftir að vera, sérstaklega ef hægt er að taka mark á þessum blessuðu hindúum – ,,Fyrstu þrjátíu ár ævinnar mótar maður venjur sínar. Síðustu þrjátíu ár móta venjurnar mann.” Þessi venja hefur verið mótuð og mun líf mitt mótast af henni. Einn daginn verð ég hrikalegur!
Ég trúi hindúunum og því á þetta ekkert eftir að breytast. Ég mun ranka við mér í sveittum dropsettum mjög reglulega næstu þrjátíu árin eða svo. Svo er þetta kannski bara fíkn. Vöðvafíkn eða endorfín fíkn. Þegar við æfum af krafti verða efnaskipti í líkamanum og hann losar út gleðiefnið endorfín. Okkur líður vel og við viljum meira. Væntanlega er ég fíkill í endorfínið og þess vegna mæti ég alltaf aftur á verksmiðjugólfið hjá Bjössa í World Class. Það er pumpið, svitinn og endorfínið sem dregur mig alltaf aftur. Ef það gerist að ég kemst ekki á æfingu í einhvern tíma verð ég allur ómögulegur, sem væntanlega eru fráhvörf. Ég er Ofurgísli og ég er fíkill.
Endorfínið dregur okkur ekki bara aftur á æfingu. Það virðist einnig stuðla að góðu mataræði og almennt betri lífstíl. Allir sem hafa æft eitthvað af viti þekkja þetta. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að fólk sem æfir ekki lifir óhollari lífstíl en hinir sem æfa að staðaldri. Það borðar óhollari mat, drekkur meira áfengi, nota meira tóbak og étur meiri sykur. Ástæðan er augljós. Þeir sem æfa ekkert þurfa að fara aðrar leiðir til að sækja þessa góðu tilfinningu sem góð æfing gefur. Að borða sveittan mat, drekka bjór, taka í vörina og úða í sig syrki gefur vellíðunartilfinningu – þótt hún sé oftast skammvinn. Og ég skil alveg að fólk leiti eftir þessari tilfinningu – en ég skil engan veginn af hverju einhver vill frekar troða þykkbotna pizzusneið í trantinn á sér frekar en að moka sér á æfingu.
Margir tengja líka við það að hafa átt gott æfingatímabil en tíma ekki að ,,skemma” það fyrir sér með einni sveittri máltíð. Hinsvegar hugsa menn sig ekki tvisvar um að fá sér pizzu og brauðstangir á þriðjudegi ef æfingar undanfarið hafa verið engar eða lélegar. Þetta er auðvitað nokkuð öfugsnúið. Þeir sem hafa æft vel ættu auðvitað að geta leyft sér miklu meira en þeir sem ekkert eru að æfa. Þannig er það samt ekki í reynd, enda þurfa þeir sem æfa vel og reglulega ekki að sækja sér þessa vellíðunartilfinningu í pizzu, kók og lindubuff. Góðar og reglulegar æfingar gefa okkur þannig ekki aðeins endorfín bombu beint uppí heila, heldur stuðla að betra mataræði, betri lífstíl og meiri vellíðan. Er þetta ekki nokkuð borðliggjandi dæmi – það er í raun algjört brjálæði að sleppa því að æfa reglulega.
Allt er þetta gott í hófi og auðvitað þarf að vera einhver millivegur í þessu öllu saman – bæði æfingum og þessu óholla stöffi. Ofurgísli nennir hinsvegar ekkert að skrifa um meðalhóf og milliveg. Það er leiðinlegt umræðuefni og Ofurgísli þekkir þessi hugtök ekki nógu vel til að geta tjáð sig eitthvað um þau.
Og eitt að lokum. Ég man ekki eftir að hafa tekið hrikalega góða æfingu og hugsað ,,þetta var nú alveg glatað, ég geri þetta ekki aftur.” Slíkt er óþekkt með öllu. Það er því ekkert annað í stöðunni en að smeygja sér í spandex buxurnar, vippa sér í hlýrabolinn og taka æfingu. Og endurtaka það svo og hleypa endorfíninu út.
Reykjavík, 6. júlí 2016
-Ofurgísli, maður fólksins – ykkar maður