Einhver hérna kominn með nóg af þessu svokallaða sumri? -Maður fólksins er með ráð; sveiflaðu þér yfir til Balí. Það er gott að vera í Asíu og það er gott að vera á Balí. Sumarið var ræst snemma með 3 vikna ofurferð til Balí og var planið að detta svo beint inn í ferskt íslenskt sumar. Gott plan sem gekk að öllu leyti upp, nema þetta með íslenska sumarið – það er ennþá ókomið.
Ferðin var klikkaðri en Kanye West – þrjár vikur af öllu því besta. Sólin var heit. Sjórinn var mjúkur. Maturinn var trylltur. Hótelin voru ofur. Lóðin voru létt. Pumpið var grimmt. Tanið var brúnt. Morgunmaturinn var lovely. Fótanuddið var verðskuldað og afslöppunin var hörð. Þetta er hin fullkomna blanda af fríi fyrir Ofurgísla og Queen H.
Þetta er Balí
Það er fátt sem gefur ykkar manni meiri lífsfyllingu en að vera í fríi í heitu landi, vakna við sólarupprás, lyfta lóðum á fastandi maga og finna pumpið, finna sviðann og finna hvernig er að vera á lífi – sprellilifandi. Fara svo í morgunmat og næra kjötið með öllu því besta sem er á hlaðborðinu. Taka gott session af afslöppun í sól, hita og sjó eða einhverja álíka afþreyingu. Enda síðan daginn á vel völdum veitingastað með öllu tilheyrandi. Fyrir svefninn er svo nauðsynlegt að henda sér í gott fótanudd. Er eitthvað betra en þessi uppskrift af degi? -Þetta er Asía. Þetta er Balí.
KEF > LONDON > BALI > GILI T > UBUD > SEMINYAK > CANGGU > LONDON
Þrjár vikur á Balí er sennilega hinn fullkomni ferðatími. Ekki of stutt. Ekki of langt. Held reyndar að það sé ekki hægt að vera of lengi á Balí. Það er töluvert ferðalag að koma sér til Balí og því rökrétt að staldra ekki of stutt við.
Fyrsti viðkomustaðurinn var Gili Trawangan, lítil eyja rétt fyrir utan Balí. Þar eru ekki bílar, bara hestar, léleg reiðhjól – já og risaskjaldbökur. Eitt það magnaðasta sem ég hef gert er að synda með risaskjaldbökum, klappa þeim og fylgjast með þeim í sjónum. Ólýsanleg upplifun. Risaskjaldbökurnar eru einar og sér næg ástæða til að gera sér ferð til Gili T. Á Gili T er ein líkamsrækt – líklega skítugasta gymmið á þessari plánetu. Suddalegt – en grjóthart!
Að æfa í fríinu
Einhverjum kann að þykja það illa farið með fríið sitt að mæta í gymið og taka aðeins á því. Frí eigi að vera slík afslöppun að púlsinn megi aldrei fara yfir 100 slögin og það megi aðeins svitna kjötsvita eftir ofát og ofdrykkju. Ég hef hreinlega þurft að svara fyrir það að stunda líkamsrækt í fríinu mínu – einsog ég hafi framið glæp eða gert eitthvað siðferðislega mjög rangt. Þetta er áhugavert. Á sama tíma fer fólk í sérstakar golf- og skíðaferðir um allan heim til að sinna áhugamálinu sínu. Að æfa, lyfta lóðum, svitna og erfiða í gyminu er áhugamál hjá Ofurgísla og í sínu fríi vill Ofurgísli sinna sínu áhugamáli – rétt einsog skíðamaðurinn vill sinna sínu áhugamáli þegar hann kaupir sér skíðaferð til Austurríki af Úrvali Útsýn eða þegar golfarinn fer til Flórída til að spila golf.
Það er svo margt sem mælir með því að æfa í fríinu. Til dæmis betri vellíðan eftir sukkið sem fylgir því að vera í fríi – gott að svitna út sukkinu. Bendi einnig á að aukin matarlyst fylgir því að hreyfa sig – og meiri innistæða fyrir öllu sukkinu. Svo er einn alveg ótrúlega heppilegur fylgifiskur þess að æfa í fríinu sínu – að enda ekki einsog útblásinn vindsæng eftir tvo daga á ströndinni. Margir koma sér í gott stand áður en strandarfríið hefst. Mæta svo á Keflavíkurflugvöll, lúðra í sig samloku, bjór og súkkulaði. Veislan heldur svo áfram á ströndinni, en púlsinn má alls ekki fara of mikið upp – þetta er frí! Svo skilur enginn hvernig stendur á því að formið hafi horfið á einum degi – öll vinnan sem var lagt í til að komast í standarformið hafi verið til einskins. Það er bara ein ástæða fyrir því – hitaeiningarnar eru orðnar margfalt fleiri inn en út.
Það væri hægt að telja upp miklu fleiri kosti þess að æfa í fríinu sínu, en fyrir utan þessa kosti sem ég hef nefnt, þá er bara miklu skemmtilegra að vera í góðu standi á ströndinni. Að taka góðan klukkutíma á dag í gyminu er þess virði. OG lofar því.
Eftir Gili T sveifluðum við okkur yfir til Ubud. Þar vorum við í geggjaðri villu með einkasundlaug í þrjá daga sem er akkúrat passlegur tími að mínu mati. Að mínu mati er glórulaust að vera ekki á flottu hóteli eða villu í Ubud. Verðlagið er einfaldlega þannig að það væri sóun á peningum að spara í hótel kostnað. Það er nóg að brasa í Ubud – hellingur að sjá og gera. Ubud er inn til landsins og enginn sjór sjáanlegur. Hinsvegar eru þarna ofurgrænir hrísgrjónaakrar sem gleðja augað. Væri gaman að vita hvað svona hrísgrjónaakur inniheldur mörg kolvetni. Í Ubud eru líka snargeðveikir apar sem ráðast á fólk, rífa í hárið á því og reyna að stela töskum og öðru dóti. Algjörir apar.
Frá Ubud tókum við taxa og færðum okkur yfir í Seminyak. Þar kann ég vel við mig. Endalaust úrval af veitingastöðum, kaffihúsum, design verslunum, sandi, sól og trylltum hótelum. Við vorum einmitt á einu trylltu hóteli, villu. Einkasundlaug sem var útgengt í bæði úr stofunni og svefnherberginu. Þjónustan var öll uppá 10,5 og var einkadriver sem skutlað okkur út um allan bæ ef við óskuðum eftir því. Það var fullbúin líkamsrækt í næsta húsi þar sem skælbrosandi starfsfólk tók á móti okkur alla morgna. Seminyak hentaði okkur jafnvel og jólin henta jólasveinum og verslunarmönnum. Það verður gaman að fara aftur til Seminyak.
Síðasti viðkomustaðurinn var Canggu. Þar vorum við í 6 nætur á hóteli sem var fullt af áttavilltum kínverjum, geggjuðum sundlaugagarði og mögnuðum morgunmat. -Já og auðvitað var gym á hótelinu sem Ofurgísli gat nýtt alla morgna. Canggu er svæði sem allt unga fólkið safnast saman og þykist vera í yoga-æfingabúðum – en flestir eru bara að hanga á kaffihúsum á morgnana, surfa á daginn og detta í það á kvöldin. Frábær staður með óbærilegt magn af góðum og metnaðarfullum kaffihúsum og veitingastöðum. Það verða allir að fara til Canggu og fá sér Bali bowl, surfa í sjónum og slappa vel af. Rétt áður en við kvöddum Canggu hentum við okkur í nokkur flúr til að skrásetja minningarnar frá ferðinni. Allt einsog það á að vera.
Ferðin endaði svo í London þar sem við eyddum einum góðum degi. Það er klókt að enda svona ferð í stórborginni og ná þannig að tengja saman strandarferð og borgarferð – 2 fyrir 1. Það er alltaf eitthvað við London. Breski hreimurinn, Soho hverfið, stórborgarbragurinn en samt þetta hráa yfirbragð og svo allur þessi matur.
Það er ekki af ástæðulausu að fólk leggi leið sína til Balí. Þarna er gott að vera. Verðlagið grín. Maturinn góður. Lífið einfalt. Það eina sem hægt er að setja útá Bali er að áreitið getur verið töluvert. Hver einasti Balí búi elskar að sjá menn með kjöt á beinunum og þeir eru ekkert að fara leynt með það. Á hverju götuhorni eru menn að selja hatta, sólgleraugu, skó og töskur. Þeir geta verið ágengir. Þessi smávægilegu atriði eru auðvitað bara litlar hnetur samanborið við öll önnur lífsgæði sem fylgir því að vera ferðamaður þarna. Það verða allir að fara til Balí og njóta þess að vera til – OG mælir með!
Reykjavík, 26. júlí 2018
-Ofurgísli, maður fólksins