Fæðubótarefni eru stórhættuleg!

Ég heiti Gísli; Ofurgísli, og ég tek fæðubótarefni. Ég er Próteinhaus. Ég sætti mig við sjúkdóminn; sjálfur Guð er læknirinn. Ég viðurkenni vanmátt minn. Líf mitt er ekki lengur hik – laust við blekkingu, fals og svik. Ég tek fæðubótarefni og verð Próteinhaus alla tíð.

Umræðan um fæðubótarefni hefur varla farið framhjá mörgum undanfarið. Þetta umræðuefni er komið í bullandi samkeppni við algengasta umræðuefni á kaffistofum landsins – sjálft íslenska veðrið. Það er vandræðaleg þögn – og þá hefur alltaf verið hægt að bjarga sér á veðrinu – og núna undanfarið hafa fæðubótarefnin verið að koma sterk inn. “Þetta er nú ljóti veturinn að verða – endalausir umhleypingar – ég bara man ekki eftir öðru eins” og svo núna nýverið “Jæja, sástu Kastljósþáttinn um daginn? Fæðubótarefni eru víst bara algjörlega óþörf – hvað drekkurðu annars marga lítra af mjólk á dag – léttmjólk eða undanrennu?” 

Umræðan er oft þannig að helst þurfi að liggja fyrir stimpluð heimild frá sýslumanni til að geta átt möguleika á að kaupa sér einn dúnk af próteini.

Það er auðvitað ekkert nýtt að þurfa taka umræðuna um fæðubótarefni. Það er merkilegt hvað margir (lesist allir) hafa skoðun á fæðubótarefnum. Sterkustu skoðanirnar koma gjarnan frá fólki sem hefur ekkert kynnt sér hvað fæðubótarefni yfir höfuð eru eða frá þeim sem hafa keypt sér fæðubótarefni og eru með svíðandi samviskubit yfir að hafa keypt sér dúnk sem endaði ósnertur uppí skáp á meðan ársveltan af súkkulaðirúsínum fór langt fram úr áætlunum – enda eru súkkulaðirúsínur mjög góðar. En það geta fæðubótarefni líka verið.

10492580_10152529665179120_3597721436998467262_n
Ofurgísli bakar oft hinar mestu dásemdir úr fæðubótarefnum.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að þessi umræða sé af hinu góða. Þetta tópik er ekkert of heilagt svo ekki mega ræða það. Þvert á móti er nauðsynlegt að taka þessa umræðu. Það getur verið vandratað í heimi fæðubótarefnanna enda gríðarlegt magn af hinum ýmsustu efnum til og það væri hæglega hægt að fara fyrsta hvers mánaðar með þétt launaumslagið og skipta því út fyrir allskonar skemmtileg efni sem eiga að auka árangurinn við æfingarnar. Það er samt kannski ekki alveg málið. En hversvegna eru fæðubótarefni alltaf svona mikið á milli tannanna á fólki? Ég vona að það stafi fyrst og fremst af því að utanaðkomandi aðilum sé svona annt um líkamlega og fjárhagslega heilsu þeirra sem nota fæðubótarefni – en efast oft um að það sé reyndin.

Hérna í framhaldinu koma svo nokkrar hugleiðingar frá Ofurgísla varðandi fæðubótarefni sem oft vilja gleymast í sjálfri umræðunni. Þetta eru praktísk atriði og atriði sem ekki verður bent á með tölum á blaði. Þetta eru samt mikilvæg atriði sem hafa mikla vigt í þessari umræðu.

– Hverjir hafa heimild til þess að nota fæðubótarefni? –

Það er mikið rætt um hverjir eiga og mega nota fæðubótarefni. Umræðan er oft þannig að helst þurfi að liggja fyrir stimpluð heimild frá sýslumanni til að geta átt möguleika á að kaupa sér einn dúnk af próteini. “Aðeins þeir sem æfa grimmt eiga að nota fæðubótarefni og þeir sem ekki æfa alla daga og eru jafnvel að byrja í ræktinni hafa ekkert við fæðubótaefni að gera.” Þetta er skoðun margra. Jafnvel færustu sérfræðinga. Þetta kann að vera nærri lagi, jafnvel rétt – svo langt sem það nær. Á sama tíma má spyrja: “Hvað með golfspilarann sem er að byrja í golfi en á samt flottasta Galloway golfsettið, skó og rándýra regnhlíf sem hann notar aldrei því hann spilar ekki golf í rigningu? -Hvers vegna notar hann ekki bara dræver, sjöu járn, pútter og plast tí?” Golfspilarinn kemst alveg 9 holurnar með þessum  búnaði. Jafnvel 18 holur – ef hann bara nennir því.

IMG_6048
Tveir grjótharðir sem nota réttu fæðubótarefnin

Það koma nefnilega önnur sjónarmið til hérna líka. Í fyrsta lagi getur það verið hvetjandi fyrir þá sem eru að æfa eða eru að byrja að æfa að kaupa sér lítinn byrjendapakka af fæðubótarefnum, t.d. prótein og kreatín. Vitandi að þessi efni geta hjálpað til við að ná betri árangri einsog hjá svo mörgum sem hafa gert gott mót í ræktinni. Og vitandi að það sé ekki nóg að taka bara fæðubótarefni til að ná árangri heldur að æfingar þurfi að fylgja með, þá hlýtur þetta sjónarmið að hafa einhverja vigt. Það er nefnilega ekki beint hvetjandi að fá sér bara mjólkuglas og harðfisk strax eftir æfingu á meðan aðrir eru að fá sér mysuprótein og aminósýrur. Þess vegna skil ég alveg golfspilarann sem getur ekkert í golfi en vill kaupa sér alvöru golfsett – það er bara miklu skemmtilegra að stunda íþróttina ef þú ert með búnaðinn og græjurnar sem geta hjálpað þér að verða betri.

Í öðru lagi. Hvenær hefur einhver verið nógu duglegur að æfa svo hann fái þessa uppástimpluðu heimild frá sýslumanni til að mega kaupa sér fæðubótarefni? Þarf hann að vera búinn að æfa samviskusamlega í tvær vikur, fimm vikur eða bara þegar hann er alveg að gefast upp því hann sér engan árangur af öllu erfiðinu? Á sama tíma má spyrja hvort golfspilarinn megi kaupa sér Galloway settið og regnhlífina þegar hann hefur náð að para tvær holur, fimm holur eða þegar hann sér að hann nær aldrei að para eina einustu holu með aðeins fjórum kylfum og plast tíi?

IMG_9134
Hér fær Ofurgísli verðlaun fyrir árangur sinn í ræktinni og á sviðinu – allur þessi árangur er einungis fæðubótarefnum að þakka. Eða svona næstum.

Í þriðja lagi. Í þessari umræðu má ekki gleyma að fæðubótarefni geta verið mjög bragðgóð og holl. Afhverju er svona hræðilegt að fá sér eitthvað bragðgott og hollt strax eftir æfingar – jafnvel þótt þær séu bara þrjár á viku? Það geta verið verðlaun fyrir að hafa mætt á æfingu og tekið á því sem aftur er hvetjandi til að mæta á næstu æfingu. Kannski er þykkur og ískaldur próteinsjeik bara bragðbetri og hollari en þéttsykrað drykkjarjógúrt frá MS – svona sem dæmi.

– Nauðsyn og þægindi –

“Ef þú borðar holla og góða fæðu þarftu ekki að nota fæðubótarefni.” Þetta hafa allir heyrt. Þetta getur líka verið rétt – svo langt sem það nær. Ég veit ekki um neinn sem er alltaf klár með eina volga kjúklingabringu og sætar kartöflur í rassvasanum fyrir hverja máltíð. Ef það væri möguleiki þá væru fæðubótarefni ekki jafn nauðsynleg og hentug og þau í raun eru. Fæðubótarefni koma ekki í staðinn fyrir fæðu, enda eru þetta fæðu-bótar-efni. Ég held að flestir geti verið sammála um þetta. Íslendingar elska Lýsið sitt og omega-3. Lýsi og omega-3 eru fæðubótarefni. Ef allir væru nú nógu duglegir að borða fiskinn sinn þá þyrftum við kannski ekki allt þetta lýsi. Fæðubótarefni eru því virklega hentug og þægileg lausn – sérstaklega fyrir þá sem eru að æfa og þurfa meiri næringu en kyrrsetumaðurinn. 

10984085_10153070618199120_4354222457509127807_n
Fagfólkið í Perform í Kópavoginum eru með bestu vörurnar og frábæra þjónustu. Þar er í alvöru lagður metnaður í að finna bestu lausnina fyrir hvern og einn þegar kemur að vali á fæðubótarefnum.

– Hollustan og óhollustan –

Fæðubótarefni fá oft ósanngjarna og óvægna umfjöllun. Sumir virðast halda því fram að þau séu beinlínis hættuleg. Það er auðvitað mikill misskilningur, mögulega fáfræði þeirra sem halda því fram eða hreinlega þrjóska. Öll fæðubótarefni verða ekki sett undir sama hatt og síðan fer það allt eftir því hvernig þeirra er neytt hvort þau geti reynst skaðleg. Það á svo að sjálfsögðu við um allt sem við setjum ofan í okkur, ekki satt? Af einhverjum ástæðum hef ég til dæmis meiri áhyggjur af þeim sem koma reglulega við í lúgunni á KFC en hinum sem gera sér ferð í næstu fæðubótarefnabúð og kaupa dúnk af próteini.

Í þessu samhengi getur verið gott að setja dæmið þannig upp að bera saman líka og ólíka kosti í mataræðinu, án þess þó að því sé haldið fram að fæðubótarefni komi í staðinn fyrir þessu svokölluðu heðfbundnu fæðu – hvað er annars hefðbundin fæða eiginlega?

Sem dæmi, hvort ætli sé hollara, annars vegar ein skeið af mysupróteini og haframjöl blandað útí vatn eða hins vegar súrmjólk með púðursykri útá, kex með rækjusalati eða Kellogs Special K (já, það er hellings sykur í Special K)? Vatn blandað í Amínósýrur eða ávaxtasafinn Brazzi? Próteinpönnukaka gerð úr hágæða próteindufti eða venjuleg pönnukaka úr hveiti og tilheyrandi? Það væri hægt að taka mörg svona dæmi, en læt þessi duga og bendi um leið á þessar þrjár fyrri færslur hjá Ofurgísla til uppfyllingar:

20140503-_MG_7773
Una Margrét lætur Ofurgíslann heyra það á þessari ágætu fótaæfingu. Mynd eftir Bent Marínós – IcelandFitness.is

– Niðurlag –

Fæðubótarefni eru ekki lífsnauðsynleg. Þau geta hins vegar verið góður hjálparsveinn til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Þeir sem eru að byrja í ræktinni þurfa kannski ekki að byrgja sig upp af fæðubótarefnum og taka þau inn í hvert mál – en líta verður á málið í víðara samhengi. Fæðubótarefni getur í mörgum tilfellum verið betri kostur en margt annað sem fólk neytir dagsdaglega – þau eru holl og líka bragðgóð, að því gefnu að rétta bragðtegundin er valin.

Hafandi sagt þetta bendi ég á að Perform í Kópavogi og Perform.is er með mikið og gott úrval af frábærum fæðubótarefnum. Þjónustan er algjört afbragð hjá þeim og ef einhver er í vafa hvað hentar honum þá er svarið að finna í Kópavoginum.

994462_10152624459109120_2370524816877985240_n
Stefán vinur minn hjá Perform er magnaður náungi og veit nákvæmlega hvaða fæðubótarefni henta þegar markmiðin eru skýr.
1505039_10152756050812972_2175005092794835282_n
Glænýtt Amino Energy. Cranberry Orange. Fæst auðvitað í Perform í Kópavoginum og Perform.is

 -Ofurgísli, maður fólksins
Reykjavík, 12. mars 2015