Hún vinnur alltaf þegar hún keppir. Hún er með metnað sem allir vilja hafa en fæstir geta jafnað. Hún er fyrirmynd sem allar stelpur og allir strákar ættu að horfa til.
Hún er fæddur sigurvegari
Kynnt er til leiks – Una Margrét Heimisdóttir; Geislafræðingur, margfaldur meistari í fitness og hörkutól að norðan. Una er með ólíkindum ósérhlífin og hefur örugglega aldrei á ævinni kvartað eða vælt enda er árangurinn eftir því. Það er mjög hvetjandi að fylgjast með Unu. Hún er gríðarlega einbeitt á verkefnin sín og gerir allt sem þarf til að ná topp árangri. Þetta er gamla góða harkan sem hefur alltaf virkað og það veit Una enda hefur hún verið í póstáskrift af gullinu undanfarin misseri.
Una er ekki bara einn fremsti íþróttamaður á landinu. Hún vinnur líka sem geislafræðingur í Orkuhúsinu. Ég held reyndar að Una sé að fikta eitthvað með þessa geisla í vinnunni – venjuleg manneskja hefur ekkert orku til að gera það sem Una gerir. Hún vaknar rúmlega fimm alla morgna og er mætt klukkan 06:00 á æfingu, fer svo beint í vinnuna og fiktar þar við geislana sína. Strax eftir geislana fer Una á seinni æfingu dagsins, en þá á hún ennþá eftir að fara í auka vinnuna sem er langt fram á kvöld – hún er nefnilega bara í þremur aukavinnum. Hún er augljóslega að fikta með geislana sína.
#UNACHAMP
Una var í Madríd núna síðustu helgi. Þar halaði hún niður einum risabikar þegar hún tók gullið í unglingaflokki í fitness á Arnold Classic Europe. Ofurgísli væri alveg til í að eiga einn Schwarzenegger bikar uppí hillu.
Þetta er samt ekkert í fyrsta skipti sem Geislafræðingurinn að Norðan sparkar í rassa útí heimi. Hún er nefnilega ríkjandi Evrópumeistari í fitness unglinga. Hvað eiga Íslendingar annars marga Evrópumeistara? Svo þarf varla að taka það fram að Una er líka ríkjandi Íslandsmeistari í sínum flokki. Já og Bikarmeistari líka. Una kann bara að vinna – þekkir ekkert annað. Þetta er ekkert eðlilegt við þennan árangur, en á sama tíma kemur þetta ekki á óvart. Una uppsker eins og hún sáir. Hún er #UNACHAMP.
En Una er ekki bara grjótmössuð. Hún talar líka grjótharða og kjarnyrta norðlensku, í orðsins fyllstu merkingu. “Una, hvað ertu að taka í dag? -Jú, ég er að TaKa fæTur.” Þetta gefur Unu forskot á alla sem eru að reyna að vera harðir í ræktinni.
Ofurgísli kann virkilega að meta svona karaktera sem skara fram úr og eru fullir af metnaði. Ég fékk því að forvitnast aðeins meira um þennan sigurvegara í von um að finna réttu uppskriftina að því að vinna alla bikara sem í boði eru og ná settum markmiðum.
Hvernig hefur Una það annars? -Ég hef það hrikalega fínt eftir góða dvöl á Spáni. Fór út á Arnold með tvö markmið og náði þeim báðum, þ.e. að vinna unglingaflokkinn og komast í topp 6 í opna flokknum. Búin að borða vel og slaka vel á fyrir komandi geðveiki, gæti einfaldlega ekki liðið betur.
Hvernig var í Madríd? -Í einu orði ógleymanleg ferð. Hópurinn sem fór var yndislegur í alla staði, svo dýrmætt að fá að upplifa svona viðburð með góðum vinum og uppskera eins og maður er búin að sá.
Hvernig er týpískur dagur í lífi Unu í niðurskurðinum? -Fyrsta vekjara klukkan hringir kl.5:10 á hverjum einasta virka morgni í niðurskurði en ég snooza alltaf til kl.5:30 því það er einfaldlega ekki hægt að fara á fætur við fyrstu vekjaraklukkuna. Ég er mætt niður í Laugar um sex leytið og tek morgunbrennslu og svo finnst mér agalega gott að ná að hoppa eins og eina ferð í kalda pottinn og nokkrar mínútur í gufu í baðstofunni eftirá. Yfir daginn er ég svo ýmist í skólanum eða vinnunni, já eða hvoru tveggja. Ég tek lyftingaræfingu alla virka daga kl.16-18 með Ástu og Konna þjálfa. Eftir lyftingaræfingu fer ég svo ýmist heim og elda kvöldmat eða fer í eina af þremur vinnunum sem ég er í og þá með nesti með mér. Þegar ég kem svo heim á kvöldin um 10 leytið, ef ég er að vinna, tek ég mig til og nesta mig upp fyrir næsta dag. Ég er svo farin að sofa um ellefu eða tólf leytið. Frekar þétt setin dagskrá svo skipulag er númer 1,2 og 3 hjá mér. (Meira að segja Ofurgísli varð þreyttur bara við að lesa þetta – sagði hún þrjár aukavinnur?).
En Una, ertu aldrei þreytt? -Það er oftast það þétt setin hjá mér dagskráin yfir daginn að ég finn ekki fyrir því að ég sé þreytt en um leið og ég sest niður og slaka á þá finn ég fyrir því. En svo lengi sem ég borða reglulega yfir daginn og held orkunni í jafnvægi þá finn ég ekki fyrir þreytu.
Hvað hefurðu unnið marga bikara? -Ég hugsa að bikararnir sem ég hef unnið í fitness séu um 10-12. En áður en ég byrjaði í fitnessinu þá var ég að æfa blak og á þar nokkra titla líka svo ég hef ekki nákvæma tölu á gripunum.
Ertu að fikta eitthvað með geislana í vinnunni sem gefur þér aukakraft? -Haha já það er spurning hvort að geislarnir í vinnunni séu að gefa einhvern auka kraft 😉 En ég held að öll þessi orka sem ég hef komi því ég reyni alltaf að vera jákvæð. Ég kvarta ekki þó svo að ég sé þreytt, svöng eða pirruð. Ég skipulegg mig vel og svo finnst mér bara svo ótrúlega gaman að æfa og ég er búin að kynnast svo æðislega fólki í sportinu að það er ekki annað hægt en að hafa nóg af orku þegar hlutirnir eru svona skemmtilegir.
Hvernig er að vera Evrópumeistari – fylgir því einhver pressa? -Það er aðallega pressa frá sjálfri mér. Þegar maður hefur einhvertímann verið í fyrsta sæti þá finnst manni allt annað vera tap. Maður er jú sjálfur sinn harðasti gagnrýnandi.
Fylgir þú einhverjum mottóum í lífinu eða við æfingar?
Númer 1: Ekki kvarta! Það gagnast engum, hvorki þér né öðrum í kringum þig.
Númer 2: If you fail to prepare you prepare to fail. Skipulag er lykillin að árangri.
Uppáhalds æfing eða líkamspartur? -Mér finnst rosalega gaman að taka axlaæfingar því það er minn sterkast líkamspartur og þá sérstaklega að taka FST7 til að finna fyrir brunanum og pumpinu. En mér finnst líka mjög gaman að taka fætur því það hefur alltaf verið veikleiki hjá mér en ég hef þó náð að bæta þær helling eftir að ég byrjaði í þjálfun hjá Konna. Mér finnst best að taka fótaæfingarnar með honum því hann lætur mig taka þyngdir sem ég mundi aldrei þora að taka ein og er alltaf með nýjar og skemmtilegar æfingar.
Ertu með einhver markmið á lofti núna? -Ég lagði upp með það strax í byrjun árs að taka mörg mót á þessu ári þar sem þetta er seinasta árið mitt sem keppandi í unglingaflokki. Það má segja að ég hafi náð öllum mínum markmiðum fram að þessu í fitness sportinu en ég varð Íslandsmeistari, Evrópumeistari og Arnoldmeistari. Þá er bara að setja næstu markmið niður á blað og halda áfram og klára árið með stæl.
Hvað er framundan? -Framundan hjá mér er Norðurlandamót 1.nóvember og svo Bikarmót IFBB um miðjan nóvember. Svo er ég að klára fjórða árið mitt í geislafræði við HÍ í vor og stefni á að skila diplómaverkefni í maí og útskrifast sem geislafræðingur.
Eitthvað grjóthart að lokum? -Gerðu það sem þér finnst skemmtilegt og gerir þig hamingjusaman. Vertu duglegur og ákveðin og aldrei láta neinn segja þér hvað þú átt að gera eða getur gert.
Reykjavík, 3. október 2014
-Ofurgísli, maður fólksins.