Nú fer heldur betur að styttast í haustmótin. Þeir sem eru að skera niður er löngu búnir að henda rabbabarasultunni og súkkulaði Smámálinu úr ísskápnum. Frystirinn og ísskápurinn hafa fyllst af svokallaðri “hreinni fæðu” sem er farin að venjast svo mikið að menn trúa að sé góð á bragðið. Nei nei, þetta er ekki svona slæmt því köttfæðið er hrikalega fínt. Ekkert flókið – bara bensín á tankinn sem bíllinn tætir í sig. Frúin hlær jú í betri bíl.
Gunni Sig er seigur djöfull sem mætir alltaf á svið í mjög góðu standi – og hann mætir alltaf á svið. Ég held í alvörunni að hann sleppi aldrei úr móti. Það finnst mér ævintýraleg seigla. Hann er líka alltaf hress, köttaður og æfir meira að segja stundum í bol með mynd af ketti á. Grjótharður.
Ofurgísli fékk Gunna “The Cat” Sig í lítið örviðtal um daginn og var svona helst forvitinn að vita hver staðan á ísskápnum hans væri fyrir mót. Hvort þarna leyndist nokkuð lítil krukka af hindberjatittlingasultu eða eitthvað álíka óvænt. The Cat var samkvæmur sjálfum sér og var löngu búinn að losa sig við allt drasl úr ísskápnum. Tékkum aðeins betur á þessu.
Hver er staðan á ísskápnum hjá þér núna – hvað er í honum? Staðan er bara nokkuð góð held ég.
Hvað má aldrei vanta í ísskápinn hjá þér? Það má aldrei vanta Sítrónu Topp (innsk. Ofurg.: það sést), egg, eggjahvítur og sósur. Svo má alls ekki vanta fisk og kjúkling í frystinn. Góð krydd, sætar kartöflur, brún grjón og haframjöl er líka skyldubúnaður.
Hvað er uppáhalds græjan þín eldhúsinu? Já, þetta er verður að teljast mjög góð spurning. En ætli það sé ekki bara gamla góða og klassíska eldavélin sem finnst í öllum betri eldhúsum í dag.
Hvernig lítur ísskápurinn hjá þér út fyrir mót? Ísskápurinn minn lítur alltaf eins út ☺

Hvernig lítur fæðubótaefna hirzlan út hjá “The Cat” og hvað má aldrei vanta? Það má aldrei vanta gott prótín, kreatín, glútamín, vítamín, BCAA og Efalean Gold frá Labrada. Svona lítur þetta út hérna heima núna en svo er ég alltaf með allskonar meira gott stöff í æfingatöskunni – Pre workout (Supercharge frá Labrada) glútamín, kreatín og BCAA.



