Hollasti óholli maturinn

Matur er góður. Ofurgísla finnst gott að borða og hann vill aðeins það besta. Ofurgísli sættir sig ekki við neitt rusl og hann nennir ekki að borða óhollt. Auðvitað kemur fyrir að OG langi í eitthvað óhollt og sveitt. Þá er úr ýmsu að velja og það þarf ekki alltaf að vera svo óhollt. Að minnsta kosti er hægt að velja hollari kost fram yfir þann óhollari – en um leið að svala þessari sukkþörf. Þá eru til hollari útgáfur af sama matnum, bara með smá tilfæringum. En hvað er hollasti óholli maturinn og hver er óhollasti óholli maturinn? Ég setti saman lista frá óhollusta óholla matnum til þess hollasta. Það er því ekki allur skyndibiti sem er inn í menginu – heldur aðeins matur sem almennt telst vera óhollur.

15800730_10154344740492972_2250059831565761111_o

6. Pizza. Það þarf ekkert að eyða of miklu bleki í þetta – hefðbundin pizza er óhollasti óholli maturinn. Pizza er mikið hvítt brauð, slatti af sósu sem inniheldur töluverðan sykur, unnin kjötvara (pepperoni og beikon) og hellingur af osti. 9″ pizza með pepp, skink og svepp er ekki nema sirka 1200 hitaeiningar. Þetta er tívólí-kaloríu-bomba. Og við skulum ekki gleyma því að fyrir þetta hvíta brauð erum við að borga alltof mikið, 3-4000 kr. fyrir stórt brauð með sósu og osti. Þá sættir sig enginn við að borða pizzu án þess að fá sér kók. Ofurgísli ætlar ekki að halda því fram að það sé glæpur að fá sér pizzu. Pizza er ömurlega góð. Þess vegna er mikilvægt að sýna hófsemi og velja réttu tilefnin þegar ætlunin er að stúta þessum 1200 hitaeiningum.

-OG segir: Gerðu pizzuna heima. Hafðu botninn mjög þunnan eða gerðu hann úr hollu hráefni (eggjahvítur, haframjöl og slíkt). Hafðu litla sósu og hafðu hana heimagerða. Settu kjúkling, rækjur, humar og mikið grænmeti á pizzuna. Haltu ostinum í lágmarki.

IMG_6487

spa

5. Pylsa með öllu. Þjóðarrétturinn okkar. Sorry Sigmundur Davíð. Sorry Bill Clinton. Sorry SS. Sorry allir sem elska pylsuna (þar á meðal undirritaður). Til að byrja með þá er ein pylsa með öllu sirka 400 hitaeiningar. Fjögurhundruð-hitaeiningar! Flestir drekka ískalt kók með pullunni sinni og sumir vilja fá hana djúpsteikta. Þá eru margir sem fá sér tvær pylsur og fleiri – eða jafnvel súkkulaðistykki í eftirrétt því ,,ein pylsa er ekki neitt.”

-OG segir: Slepptu brauðinu, slepptu pylsunni og slepptu sósunni – fáðu þér bara eitthvað annað í sjoppunni.

IMG_1924
OG með 400 hitaeiningar í annarri og 800 í hinni

4. Franskar kartöflur. Í mörgum tilvikum eru franskar borðaðar sem meðlæti með öðrum óhollum mat. Og svo er vinsælt að baða franskarnar uppúr kokteil eða majó. Í ofanálag eru franskar kartöflur bara alls ekkert það góðar. Oftast eru þær mjúkar, rétt volgar og það líður engum vel eftir að hafa skóflað sveittum frönskum ofaní sig. Til stuðnings þessari niðurstöðu bendir undirritaður á að stór skammtur af frönskum á McDonalds er ekki nema um 500 hitaeiningar – og þetta á að kallast meðlæti.

-OG segir: Skerðu sætar kartöflur niður í strimla og hentu inní ofn. Til að gera þær stökkar getur virkað að velta þeim uppúr eggjahvítum og/eða skjóta smá Pam-sprayi á þær. Stilltu ofninn á grill síðustu andartökin til að fá réttu áferðina.

15822776_1066192823507573_8452746386621689229_n
Protein Bites – Holla snakkið!

3. Djúpsteiktur matur. Það þarf engum að koma á óvart að eitthvað sem fer ofan í djúpsteikingarpott sé óhollt. Ég man að það var hægt að kaupa djúpsteikt Snickers í pylsuvagninum á Hornafirði þegar ég var unglingur – hvað gekk fólki til og hver ætli afdrif þeirra hafi verið sem lögðu sér djúpsteikt Snickers til munns? Ég sé fyrir mér að það gætu verið einhver skaðabótamál í uppsiglingu.

-OG segir: Notaðu ofninn, George foremann grillið, pönnuna eða útigrillið.

2. Hamborgari. Við erum að nálgast hollasta óholla matinn. Uppistaðan í hamborgara er nautakjöt, smekkfullt af próteini. Það er því himinn og haf á milli pizzu og hamborgara hvað hollustu varðar. Auðvitað er hægt að gera hamborgara óhollari en pizzu ef einbeittur brotavilji er til staðar, en með dass af skynsemi og hóflegri græðgi þarf hamborgari alls ekki að vera svo óhollur, en samt svo góður. Besti hamborgarinn í bænum er auðvitað á Veitingastaðnum 73 á Laugavegi 73. Þar er hægt að fá fullkomna 300 gr. borgara og veit ég fyrir víst að þar er aðeins notað gæðahráefni. Verðið þarna er líka mjög sanngjarnt.

-OG segir: Það þarf enginn að borða efra brauðið á hamborgaranum. Það er bara þarna uppá lúkkið – ekkert annað. Slepptu eða lágmarkaðu franskarnar og hafðu sósuna í réttu magni. Þetta eru engin vísindi – sýndu skynsemi.

IMG_7308
Heimagerður burger með sætum kartöflum ala OG
IMG_1719
OG mælir með Galloway nautakjötshakkinu – fæst í Matarbúrinu, Granda

1.Kjúklingavængir. Ofurgísli elskar kjúklingavængi sem hann gerir sjálfur heima. Það er allt gott við heimagerða kjúklingavængi. Í fyrsta lagi kostar bakkinn af vængjum bara eitthvað klink út úr búð, 2-300 kall. Í öðru lagi er þetta hrein kjötafurð, ekkert unnið og engin viðbætt efni. Og í þriðja lagi eru vængir aðallega prótein og svo auðvitað fita, sem allir hafa gott af í réttu magni. Blóðsykurinn ætti því ekkert að kippa sér mikið upp við vængjaveislu og allir verða hel-köttaðir. Vængirnir standa algjörlega fyrir sínu og er engin nauðsyn að hafa eitthvað meðlæti með þeim. Kjúklingavængirnir eru hollasti óholli maturinn – og í raun eru þeir bara alls ekkert óhollir.

-OG segir: Til að gera vængina ennþá betri er gott að dúndra smá Pamsprayi á vængina og henda þeim í plastpoka. Dufta svo niður haframjöl, bygg eða stein úr avókadó og henda ofan í pokann með vængjunum. Hrista pokann þannig að vængirnir verða dufthúðaðir. Leggja þá á ofnplötu og inní ofn. Það verður að gefa vængjunum góðan tíma inní ofni og enda á smá blæstri. Borðaðu þetta og þú verður hrikalegur.

IMG_1500
Vængir með byggmjöli utaná og sætar kartöflur
IMG_1550
Vængirnir verða svartir þegar steinn úr avókado er duftaður niður og vængjunum velt uppúr því fyrir eldun. Geggjað gott og hollt.

Það skal tekið fram að þessi listi er ekki eingöngu byggður á fjölda hitaeininga, heldur eru fleiri sjónarmið höfð til hliðsjónar, svo sem tilfinning Ofurgísla á skammtastærðum, áhrif á sykurstuðul neytanda, neyslumynstur og geðþótti undirritaðs.

Reykjavík, 13. janúar 2017
-Ofurgísli, maður fólksins – ykkar maður