MÁ ÉG FÁ SMÁ DÓPAMÍN, TAKK

Merkileg staðreynd sem margir tengja við. Þegar við erum dugleg að æfa, þá er mataræðið líka í góðum gæðum. Þegar við dettum útaf sporinu, þá gerist það sama í mataræðinu. Þá má fullyrða að lífstíll sé að öllu leyti almennt verri hjá þeim sem æfa og hreyfa sig ekki reglulega.

Hvers vegna er þetta ekki akkúrat öfugt farið, ef við erum dugleg að æfa, þá gætum við nú leyft okkur að borða aðeins meira óhollt. Og ef við erum ekki að æfa, þá ætti mataræðið að minnsta kosti að vera gott svo allt fari nú ekki í steik.

Það er hinsvegar ótrúlega augljós ástæða fyrir því að fólkið, sem er ekki hreyfa sig, lifir almennt óhollari lífstíl. Þegar við æfum og tökum á því dælir heilinn út allskonar góðum taugaboðefnum, dópamíni, seretónini, endorfíni og öðrum gleðiefnum. Heilinn umbunar okkur með fáránlega góðri tilfinningu – ég vona að flestir þekki þessa eftir-æfingu-tilfinningu.

Ef við hreyfum okkur ekki þá er heilinn ekkert að umbuna okkur með þessum gleðiefnum og því þarf að sækja gleðiefni heilans með öðrum hætti. Þá kemur sykurinn í Nammilandi, snakkpokinn uppí skáp, Eldsmiðjupizzan, Stellu bjórinn og tóbakið sterkt inn. Allt þetta gefur huganum nefnilega í raun sömu fáranlega góðu tilfinninguna – í smá tíma allavega.

Sjá einnig: “Hollasti óholli maturinn”

Það sem er merkilegast í þessu er að þarna er heilinn í raun að plata okkur; við sem slík höfum ekki hugmynd um af hverju við verðum að fá þetta Snickers og þessa ostapizzu. Líkaminn er bara að kalla á gleðiefni sem hann fær ekki annarsstaðar – þessi gleðiefni líkamans eru nefnilega ávanabindandi. Við viljum kalla þau fram aftur og aftur.

Á sama tíma þýðir þetta að ef við æfum vel þá þurfum við ekki að sækja gleðiefni heilans með öðrum hætti. Þau koma náttúrulega, umbunarkerfi heilans veit að þau koma með góðri hreyfingu og þess vegna helst almennt í hendur góð hreyfing og gott mataræði. Og af sömu ástæðum mætum við aftur á æfingu og tökum hrikalega á því, líkaminn veit nefnilega að heilinn mun umbuna okkur fyrir það. Þetta er auðvitað magnaður andskoti.

ÆFUM VEL – BORÐUM RÉTT- SÝNUM SJÁLFSAGA

Ofurgísli að klára tudda fótaæfingu – fullur af dópamíni

Kópavogur 9. mars 2020
-Ykkar maður, maður fólksins.

– www.ifitness.is –
Tags from the story
,