Niðurskurðarkokteillinn

Ofurgísli er oft spurður hvernig sé best að koma sér í gott form – verða helskorinn og tinnuköttaður. Í raun er það alls ekki flókið og bara nokkur atriði sem huga þarf að. Niðurskurður er bara ofureinfaldur sumarkokteill af nokkrum grunnatriðum sem síðan má bragðbæta og skreyta eftir hentisemi. Þótt sumir vilji ekki trúa því, þá líður Ofurgísla aldrei betur en í niðurskurði því þá fær hann að æfa mikið, borða hollt og láta aðeins reyna á sig.

Köttkokteillinn hjá Ofurgísla er mjög einfaldur og hann svínvirkar. Þetta er bara dass af sjálfsaga, þolinmæði, mataræði, skipulagi og æfingum. Einfalt, já. Það er samt enginn að segja að það sé auðvelt að skera niður. Þvert á móti er það mikil vinna, en þá er gott að þekkja uppskriftina. Og til að hafa eitt á hreinu, þá er miklu erfiðara að bæta á sig kjöti (stækka) en að skera niður. Sá kokteill er samt að mestu leyti eins – bara aðrar áherslur.

I. Skipulag

Niðurskurður snýst fyrst og fremst um skipulag – skipulagið er eiginlega svona einsog glasið undir kokteilinn. Skipulagið er því lykilatriðið sem þarf alltaf að vera til staðar og nóg af í kokteilnum. Þetta skipulag felst í smá vinnu sem fer fram kvöldið áður í að preppa máltíðir, æfingafötin og annað sem þarf að vera klárt. Hver hefur ekki lent í því að gleyma að gera æfingatöskuna klára daginn áður og þurfa að fara heim eftir vinnu/skóla til að sækja æfingadótið, en síðan nenna ekki út aftur. Þetta er líka sorgleg tímaeyðsla. Það er svo í raun ekkert mál að borða hollt ef skipulagið er í lagi. Að borða hollt er fyrst og fremst spurning um skipulag – það finnst flestum gott að fá sér kjúklingabringu, hrísgrjón og grænmeti í hádeginu, en ef þetta hefur ekki verið gert klárt daginn er möguleg lending einhver skyndabitastaðurinn, júmbósamloka eða djúpsteiktir laukhringir. Ef skipulagið er gott þá ætti allt að ganga upp einsog smurð maskína. Ef skipulagið vantar verður restin alltaf eitthvað bölvað sull.

– Sjá einnig: Sumarformið í boði Ofurgísla- 

 

Ofurgísli preppar alltaf matinn ber að ofan
Ofurgísli preppar alltaf matinn ber að ofan

II. Sjálfsagi

Það er auðvitað mikilvægt að spara ekki sjálfsagann í uppskriftina. Sjálfsagi er eitthvað sem allir ættu að geta fundið í birgðaskápnum sínum. Sumir þurfa að kafa aðeins dýpra í skápinn en aðrir, áður en þeir finna sjálfsagann sinn – en hann er þarna. Ég meina, stundum langar manni ekkert að mæta í skólann eða vinnuna, en mætir samt. Það er ein birtingarmynd sjálfsaga. Ekki hugsa að þú hafir ekki sjálfsaga – þú hefur hann víst. Ofurgísli hefur alltaf passað sig að eiga nóg af sjálfsaga í skápnum sínum og notar mikið af honum í kött-kokteilinn.

III. Mataræði

Fiskur. Ofurgísli borðar mikið af fisk þegar hann vill kveðja belginn og heilsa uppá kviðinn. Hrein fæða er undirstaða í kokteilinn og í hann fara engar unnar kjötvörur, kex eða kafloðnar pizzur. Kjöt, kjúlli, fiskur, sætar kartöflur, hýðissgrjón, haframjöl, grænmeti og vel af vatni er eitthvað til að vinna með. Ekkert flókið. Skammtarnir eru í góðu hófi – ekki of mikið og ekki heldur of lítið. Fæðubótarefni koma að góðum notum hérna – þau bestu fást í Perform og www.perform.is.

Það væri hægt að skrifa langa færslu um mataræði í niðurskurði og mataræði almennt. Hérna fara margir að flækja hlutina fyrir sjálfum sér, en þetta er ekki svona flókið! Það vita t.d. allir að sykur hjálpar ekki við niðurskurð – sleppa honum. Það vita líka allir að mikið af hvítu brauði og kókó puffs hjálpa ekki hérna – sleppa því. Eins kemur engum á óvart að unnin matvara verður seint talin vera góð – hendum henni út. Þetta er eiginlega bara spurning um smá “common sense” og hugsanlega nokkrar google uppflettingar – ekkert flóknara en það.

Á laugardögum er gott að hleypa sér aðeins upp og borða meira en hina dagana. Þetta þýðir ekki að morgunmaturinn eigi að vera Nóa kropp útí rjóma með þykkbotna Dominos on the side. Nammidagarnir hjá Ofurgísla byrja oftast um tvöleytið eftir laugardagsæfinguna. Ofurgísli hefur átt margar ferðir á veitingastaðinn 73 á laugardögum þar sem hann “sporðrennir” einum 300 gr. Epic burger. Þaðan fer Ofurgísli með spúsu sinni rakleiðis til Jóa Fel og sækir sér einsog eina gulrótarköku, brauð og eitthvað sambærilegt góðmeti.

1000646_10152334899064120_709398001_n
Um helgar fer Ofurgísli og nær sér í sætabrauðmeti hjá Jóa Fel.

IV. Æfingar

Það kemur kannski ekki á óvart að það þurfi góðan slurk af æfingum í kokteilinn svo hann verði nú almennilegur. Það hefur svínavirkað fyrir Ofurgísla að mæta í morgunbrennslu fyrir vinnu þegar hann er að skera niður eða vill losa sig við einhver kíló. Það getur tekið nokkra morgna að venjast því að vakna snemma og koma sér af stað – en þá er þetta líka komið í rútínu og verður allt að því ávanabindandi, sérstaklega þegar árangurinn fer að skila sér. Það kemur því ekki á óvart að það er alltaf sama fólkið, ár eftir ár, sem mætir á morgnana í Laugar – ég hef séð það sjálfur. Og eitt enn varðandi morgunæfingarnar – flestir verða alltaf orkumeiri yfir daginn þegar þeir mæta á morgunæfingar. Það er merkilegt að fá orku við það að eyða orku – en þannig er það nú samt. Eftir vinnu fer Ofurgísli á lyftingaræfingu og tekur vel á því.

IMG_6889
Ofurgísli í góðu glensi á æfingu.

V. Þolinmæði

Það virðist taka líkamann nokkrar vikur að átta sig á því að hann er í niðurskurðarfasa eða hann vilji losa sig við einhver kíló. Þess vegna verður að setja dass af þolinmæði í kokteilinn. Eftir 4-5 vikur af þessum kokteil fer líkaminn að taka við sér og þá fyrst verður þetta gaman. Kokteillinn fer að bragðast vel og uppskriftin verður jafn sjálfsögð og niðurgangur túrisa í Asíu (sem dæmi). Það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um mikilvægi þess að hafa þolinmæði í kokteilnum, því ef henni er sleppt verður kokteillinn súr, óspennandi  og endar í vaskinum.

Unknown-4

Reykjavík, 12. febrúar 2015
-Ofurgísli, maður fólksins