Norðurlandamótið í fitness og vaxtarrækt var um helgina. Þetta var hörkumót með fullt af stórgóðum keppendum af allri Skandinavíu plús Eistlandi. Það lífgaði töluvert uppá mótið að hafa finnska áhorfendur í salnum. Þetta tungumál er betra en gott uppistand. Sem dæmi þá segja Finnar “moi” þegar þeir heilsast og svo “moi moi” þegar þeir kveðja. Þetta eru bara mennskir múmínálfar. Það sem stóð uppúr eftir þessa helgi var samt Perform auglýsing af Ofurgísla sem gnæfði yfir keppendurnar á sviðinu á stóra tjaldinu. Allt annað þessa helgi var í raun bara aukaatriði.
Annars gerðu Íslendingarnir það gott um helgina. Fyrst ber að nefna herramanninn og góðkunningja síðunnar, Panamaprinsinn. Það geislaði af helskornum prinsinum og stal hann allri athygli af öðrum góðum köllum í sínum flokki. Minn maður landaði einum stórum Norðurlandameistaratitli í -80 kg flokki í vaxtarræktinni. Til hamingju, kæri Panamaprins!
Gæðablóðið og ofurskrokkurinn Elmar Diego lenti svo í öðru sæti í Classic Bodybuilding (fitness). Sjálfur hefði ég alltaf sett hann í fyrsta sætið. Reyndar hefði verið eðlilegast að svipta Norðmanninum titlinum eftir að hann tók sigurhoppið þegar úrslitin voru kynnt. Norsarar eru alltaf pínu kjánalegir. Norsarar eru nefnilega ekki kúl eins og Svíar og ekki heldur svona krúttlegir og látlausir múmínálfar eins og Finnar. Norsarar eru heldur ekki víkingar eins og Íslendingar, þótt þeir þrái það mjög heitt. Fleiri strákar komu svo á svið um helgina og skiluðu sínu og hefði ég viljað sjá Magga Sam taka sinn flokk. Nafni hans Bess er magnaður að mæta helþykkur og skorinn ár eftir ár. Þá verður spennandi að fylgjast með Mark Bargamento í framtíðinni. Hnauskþykkur og kornungur.
Stelpurnar okkar gerðu gríðarlega gott mót um helgina. Karen Lind Richardsdóttir var stjarna kvöldsins og vann Bikini flokkinn sinn, snýtti Overall-inu og sparkaði um leið í rassinn á öllum bikini stelpum Skandinavíu og víðar. Árangur uppá tvo hnausþykka bicepa. Ranný Kramer kom inn í dúndurformi. Hún notaði alla sína reynslu og féll heldur betur í kramið hjá dómurunum því hún kláraði sinn flokk með stæl í fitnessinu og er Norðurlandameistari. Vel gert Kramer! Margar stelpur sýndu svo miklar bætingar. Má þar til dæmis nefna Evu Fells, Sigrúnu Morthens og Rannveigu Hildi. Þær verða án efa atkvæðamiklar á næstu árum.
Ég sjálfur var uppí stúku í þetta skiptið og reyndi að öskra hærra en finnsku múmínálfarnir. Það varð pínu erfitt þegar leið á mótið því ég varð mjög óvænt svangur á miðju móti. Þetta var annars vel heppnað mót í alla staði og gekk hratt og vel fyrir sig. IFBB gerðu því gott mót.
Síðan tók ég nokkra punkta:
- Ég varð mjög smeykur þegar danski djöfullinn í 100+ flokknum kom á sviðið. Hann var 123 kíló í vigtun. Hann ældi baksviðs líka.
- Það var norsk physiqe stelpa sem sveif um sviðið á táberginu. Hælarnir snertu aldrei gólfið. Það var magnað.
- Það þarf að koma upp hamborgarabíl fyrir utan Háskólabíó þegar svona keppnir eru.
- Það er miklu betra að hafa forkeppni þar sem aðeins sex komast í úrslit um kvöldið. Það verður betra show með slíku fyrirkomulagi.
- Sumar stelpur hafa ekki hugmynd um hvernig á að “snúa beint fram.”
- Ryan Terry var í jogging galla.
- Ryan Terry var ekki í stuttbuxum.
- Það er alltaf jafn gott þegar Siggi Gests sópar mönnum af sviðinu fyrir Top 3 myndatökuna.
- Litli strákurinn hans Magga Bess hljóp inná sviðið í miðri keppni. Hann byrjar snemma að fara á sviðið og miklu fyrr en pabbi sinn. Við eigum efalaust eftir sjá hann oftar á þessu sviði í framtíðinni.
- Eftirminnilegasta frá þessari keppni var Perform auglýsingin af Ofurgísla
- Ofurgísli stóð í þeirri meiningu að brimbrettastrákar þyrftu stóra og sterka kálfa til að stíga ölduna á brimbrettinu. Ofurgísli hefur vaðið í villu.
- Eina sem vantaði var ein ofurhress rútína frá Gasman.
Ég fékk nokkrar myndir lánaðar frá Iceland Fitness (ljósmyndari Kristján Freyr Þrastarsson) og Fitnessfréttum (ljósmyndari Gyða Henningsdóttir). Það er svo heill hellingur af ljósmyndum inná www.fitness.is og www.ifitness.is.
Reykjavík, 5. nóvember 2014.
-Ofurgísli.