Það er sjaldan einhver lognmolla í kringum OG. Við fáum úthlutað einu lífi og það er ekkert aukalíf í þessum leik. Ofurgíslinn hefur því reynt að læra að nýta hverja mínútu vel þannig að hver hreyfing, aðgerð, í leiknum hafi tilgang. Lang oftast snýst það um að líða betur og hafa gaman – ekkert flóknara en það.
Það verða alltaf að vera nokkrir boltar á lofti í einu, hraðinn mikill, tíminn vel nýttur og afkastagetan á við stórt álver – cirka 400 þúsund tonn árlega. Undanfarnar vikur hafa verið hraðar, skemmtilegar og mjög viðburðarríkar hjá OG. Þannig þrífst ykkar maður best. Þetta er lífið – og það er einsgott að byrja að lifa því núna.
Það er svo geggjað að vakna eldsnemma, á undan öllum, og finna fyrir tilhlökkun að takast á við verkefni dagsins. Mæta á morgunæfingu klukkan 06:00, hlægja með vinnufélögunum, borða hollan mat, repsa 200 kíló í hráum æfingasal í Breiðholti og finna að maður sé á lífi. Gefa af sér og fá til baka og hlusta á The Life of Pablo með Kanye West.
– Ofurgísli fékk símtal frá Brennslunni –
Í síðustu viku skrifaði OG pistil um hvernig á að koma sér í sumarformið. Pistillinn fékk mikla lesningu og geri ég ráð fyrir því að allir lesendur síðunnar verði í tuddaformi í sumar. Strákarnir í Brennslunni á FM957 hringdu svo í ykkar mann til að ræða þetta þarfa málefni. Þetta var þrælgott spjall sem við áttum og er skylda að hlusta á viðtalið. Ég held líka að allir geti verið sammála um að Brennslan á FM er það besta sem fram hefur komið í ljósvakamiðlum síðan Hemmi Gunn var í sjónvarpinu.
Viðtalið við OG byrjar eftir rúmlega 41 mín og má hlusta á það HÉR.

Í þessu samhengi má svo nefna helmassað innslag um ykkar mann hjá Íslandi í dag þar sem spandexið var til umræðu ásamt öðrum hlutum. Hægt er að horfa á það með því að klikka á myndina hér fyrir neðan.
– Ofurgísli fékk fulla hleðslu í bústað –
Að fara í sumarbústað út á land að vetri til er eitt það besta sem OG veit um. Á sama tíma og það er nauðsynlegt að hafa alla boltana á lofti er mikilvægt að geta kúplað sig út og náð sér niður á jörðina. Þá er gott að fara úr bænum í rólegt umhverfi og koma til baka með fulla batterí hleðslu. Mæli með þessu.


– Ofurgísli hitti Röggu Nagla í Perform –
Það er með ólíkindum hvað leiðir Ofurgísla og Röggu Nagla liggja alltaf saman þegar þessi magnaða ofurkona er á landinu. Ég held stundum að hún sitji fyrir mér og hún heldur það sama um mig. Ef það er ekki ég sem rekst á hana – þá er það móðir mín. Og ef það er ekki hún – þá er það presturinn hann bróðir minn. Magnaður andskoti.

– Ofurgísli verður fyrir tjóni –
Margir Próteinhausar kannast við þá tilfinningu þegar buxurnar rifna í klofinu. Þetta eru mjög blendnar tilfinningar. Á sama tíma og það er sárt að sjá eftir fallegum og vel sniðnum buxum er það ákveðin viðurkenning á að einhver kjötsöfnun hafi átt sér stað. Svo má nú ekki gleyma því að það þykir bara nú helvíti flott að vera í rifnum buxum og eru þær gjarnan boðnar til kaups í því ástandi gegn háu gjaldi í helstu verslunum borgarinnar og þótt víðar væri leitað.
Reykjavík, 24. febrúar 2016.
-Ofurgísli, maður fólksins.