Það gerði góðan dag þegar Ofurgísli- og hella duttu í myndatöku hjá Hallmari ljósmyndara. Af sinni alkunnu snilld skaut Hallmar hverja myndina af fætur annarri, rétt einsog íslensk rjúpnaskytta fyrir – og jafnvel eftir jól. Síðuhaldara hafa borist nokkrar myndir frá þessum algóða ljósmyndara og eru þær að finna hér að neðan. Aðallega eru þetta þó “behind-the-scenes” myndir einsog sjá má.
Hallmar er orðinn einn alvinsælasti fitness- og vaxtarræktarljósmyndari landsins – ekki að ástæðulausu. Ótrúlegur fagmaður sem hefur góða tilfinningu fyrir því sem hann er að gera enda sjálfur á kafi í sportinu. Hallmar er að auki hlaðinn öllum þeim ljósmyndabúnaði sem þarf til að ná bestu gæðunum og lýsingunni. Loks er okkar maður alltaf helköttaður og er æðaberasti maður í heimi.
– Hér má finna heimasíðuna hjá Hallmari –
Án efa eru allir að velta fyrir sér hvar Ofurgísli fékk þessa geggjuðu bláu UA skó sem hann er í – en þeir fást auðvitað í Altís/Under Armour í Hafnarfirðinum. Þetta eru klárlega bestu æfingaskór sem ég hef átt – þeir eru bæði léttari en fylgiblað Fréttablaðsins um útfaraþjónustur og mýkri en kínversk baðmull. Í verslun Under Armour í Hafnarfirðingum er nefnilega að finna gríðarlegt úrval af skóm, fatnaði og öðrum aukahlutum – sérstaklega eftir að versluninni var breytt. Hrikalega gaman að detta þarna inn og gera vel við sig.
Við vorum bæði með tanið frá Brazilian Tan sem kom ótrúlega vel út. Það er skíteinfalt að bera það á sig, tekur enga stund og alveg svínvirkar.
Reykjavík, 20. apríl 2015
-Ofurgísli, maður fólksins