Ofurgísli hefur ítrekað verið handrukkaður um fleiri grjótharða æfinga playlista. Áhuginn á því hvað OG er með í eyrunum á æfingum virðist töluverður og hafa hinir playlistarnir fengið góðar undirtektir. Það kveður við sama tón og áður hjá ykkar manni og þarf ekki að koma neinum á óvart hvernig tónlist er á þessum þriðja Ofurplaylista. Svart-hvítt bófarapp er rauði þráðurinn í gegnum þennan playlista – eða einsog þjóðverjinn segir, Schwarz-Weiß Gangster-Rap ist der rote Faden.
– Sjá einnig: Ofurlistinn Vol.I –
– Sjá einnig: Ofurlistinn Vol.II –
Helst hefði ég viljað hafa alla plötuna Life of Pablo með Kanye West á playlistanum. Brosmildi Íslandsvinurinn hefur farið í gegnum ófá dropsettin með mér undanfarnar vikur – eða allt frá því að platan kom út. Hrikalega góð plata, en á sama tíma nokkuð steikt á köflum. Óvæginn Kanye lætur menn og konur heyra það á plötunni – grjótharður.
Lag númer 3 á þessum ofurlista er í miklu uppáhaldi – “Whatchu Want”. Ofursvalt lag þar sem Jay-Z nýtur góðs af mögnuðu flæði frá Maestro, Notorious B.I.G. Þetta lag fær 12 reps af 10 mögulegum (maður tekur alltaf meira en það sem segir á prógramminu). Svo er gaman að hafa eitt lag með lífskúnstnernum Action Bronson, en hann verður einmitt vel spikaður í Laugardalnum á Secret Solstice núna eftir tvo mánuði.
Gísli Pálmi er ekkert að ruglast inná Spotify og því kemst því miður ekki á listann. Hefði viljað hafa allavega eitt lag með GP þarna. Hann sníkar sér þó inn bakdyramegin með Úlfinum í Úrið mitt er stopp pt.2. Geggjað lag og að mínu mati besta framlag GP til senunnar, enn sem komið er. Emmsjé Gé rímar um að stækka sig í ræktinni og fá sér fleiri húðflúr og kemst þannig inná þennan ofurlista.
Það jafnast fátt á við reiðan Eminem í þráðlausum Beats – endar alltaf með grjóthörðu dropseti. Þá fær The Game að lauma einu gömlu og góðu á listann í þetta skiptið – Leikurinn er taktfastur í þessu eðal glæpamannarappi.
Reykjavík, 19. apríl 2016
-Ofurgísli, maður fólksins