Frakkland hefur tapað orrustu. En það hefur ekki tapað stríðinu.
Ofurgísli er keppnismaður mikill og fer aðeins fram til sigurs líkt og franski herhöfðinginn og forseti Frakklands, Charles de Gaulle, sem sagði þessi fleygu orð við ærið tilefni. Ofurgíslinn ykkar var í sínu besta formi hingað til þegar hann mætti til Spánar í maí mánuði og háði þar kröftulega baráttu við alla hina bestu kjötkallana í Evrópu á sterku Evrópumóti í fitness og vaxtarrækt. Þarna voru allra þjóða kvikindi frá Evrópu og jafnvel víðar – einsog í Júróvision. Niðurstaðan var kannski ekki sú sem lagt var upp með og markmiðin höfðu sagt til um. Hinsvegar var margt jákvætt við þessa ferð og hellingur sem fer í stóra reynslubankann. Þótt þessi orrusta hafi tapast – þá er stríðið ennþá í fullum gangi og hef ég aldrei verið öflugari, einbeittari og hungraðri í árangur. Orrustan hefur því ekki gert neitt annað en að styrkja mig – styrkja Ofurgíslann – styrkja ykkar mann!
Ferðin var alveg mögnuð – það var gaman að vera kringum allt þetta fólk sem var komið í sama tilgangi og maður sjálfur. Þarna voru meira en 1.000 keppendur í öllum flokkum og ennþá fleiri aðstoðarmenn, aðstandendur og fylgifiskar. Allir elgtanaðir, helmassaðir og tinnuköttaðir. Þið getið ímyndað ykkur andrúmsloftið og stemninguna.
Það var gaman að sjá hvað samheldnin var mikil hjá öðrum þjóðum og almennt utanumhald gott. Þarna voru allir í sérmerktum landsliðsgöllum, liðstjórar sem héldu utan um hópana og alvöru aðstoðarmenn einsog nauðsynlegt er í svona keppnum. Það var svo eiginlega jafn gaman að sjá okkur sveitavarginn frá Íslandi. Við vorum eiginlega einsog illa hirtur túristi sem rambar á einhverja bæjarhátíð útá landi eftir að hafa orðið viðskila við “túrgædinn” – alveg lost en hrikalega til í djammið með heimafólkinu – og með fullan bakpoka af volgum 2.25% pilsner léttöli.
Eftir mót renndum við Ofurhella okkur suður til Barcelona og héldum þar til í tvo frábæra daga áður en við fórum aftur heim. Barcelona er geggjuð borg – það eina sem vantar í hana er eitt stykki Ofurgísli allan ársins hring. Þarna væri ég til í að dvelja ævilangt og helst að eilífu.
Reykjavík, 8.júlí 2015
-Ofurgísli – maður fólksins