Þeir segja að enginn fari bara einu sinni til Tælands – þú kemur alltaf aftur. Árið 2011 fórum við Hella mín til Tælands og svo aftur núna í sumar. Það fer enginn bara einu sinni til Tælands. Við vorum í Tælandinu í tæpar fjórar vikur – frábærar vikur. Þarna nutum við hverrar mínútu í botn – hvort sem það var á ströndinni, í morgunmatnum á hótelinu, í nuddi eða í gymminu. Árið 2011 kláruðum við allt þetta túrista stöff, fórum á fílsbak, klöppuðum ljóni, fórum í rafting o.fl. Núna var markmiðið að slappa af og njóta þess að vera í fríi – já og fara daglega í nudd.
Þegar við förum svona í útlandaferðir geri ég skilyrði um tvennt – annars vegar að það sé mjög góður morgunmatur á hótelinu og hinsvegar að það sé gym á hótelinu eða mjög nálægt því. Hótelmorgunmatur og gym eru hlutir sem komast mjög ofarlega á listann minn yfir áhugamál. Öll hótel eru því bókuð með þetta í huga.



Við byrjuðum á að fara til Krabi, sem er nokkuð sunnarlega á meginlandinu. Þar vorum við í tæpa viku í góðu yfirlæti á Hóteli við hliðina á P.U.S.H Gym – já og McDonalds. Morgunmaturinn var mjög góður og tókst mér strax að komast í náið samband við yfirkokkinn sem sá til þess að ég fékk alltaf sérstakan ost sendan á borðið til mín. Í staðinn gaf ég honum góð æfingatips og peppaði hann áfram í eldhúsinu. Mjög góður díll fyrir báða aðila.




































Eftir Krabi fórum við á litlu Skjaldbökueyjuna Koh Tao. Þarna snýst allt um köfun – og ekki að ástæðulausu. Sjórinn þarna er óþægilega tær og sandurinn fínni en monohydrate kreatín – svokallaður kreatínsandur. Við tókum dagstúr í köfun með snarbiluðum breta – það stóð algerlega uppúr í þessari ferð. Þetta er einsog að vera ofan í risastóru fiskabúri – ólýsanleg tilfinning. Í Krabi æfðum við í grjóthörðu gymi – Monsoon gym. Það á vel við mig enda svitna ég vanalega heilu Monsoon regntímabili á hverri æfingu. Þarna voru líka Mua Thay æfingabúðir og ruddalega skítug klósett.









Á Koh Tao gistum við á Sensi Paradise Beach Resort sem eru litlir kofar í risastórum og gróðurmiklum garði. Þarna var mikið dýralíf bæði inni og úti. Við fengum ofurstóra kónguló í heimsókn sem síðan hvarf eftir tvo daga, en þá var líka kominn mjög stór eðla í staðinn. Hún faldi sig í ferðatöskunni hjá Hellu og stökk uppúr henni með miklum látum þegar Hella opnaði töskuna í eitt skiptið. Svo var þessi fallegi heimilisköttur sem beið alltaf við dyrnar og tróð sér inn til okkar og heimtaði mat. Já og ekki má gleyma yndislegu moskítuflugunum sem virtust ekkert móðgast þótt maður blótaði þeim og hótaði skjótum dauðdaga – þær voru alltaf með manni, í kringum mann og smökkuðu jafnvel aðeins á manni.








Mér leið einsog kóngi í kastalanum mínum á þessari yndislegu Skjalbökueyju, einsog sést á meðfylgjandi myndum. Koh Tao er geggjuð eyja sem ég mæli með fyrir þá sem fara til Tælands.





















Næsti viðkomustaður var Koh Samui – önnur eyja nálægt Koh Tao. Þarna vorum við líka árið 2011, en á annarri strönd. Það hefur orðið mikil breyting á eyjunni á þessum fjórum árum. Hún er að verða mjög vestræn og í raun búin að tapa töluvert af sjarmanum sínum. Það er hinsvegar gott að vera á Koh Samui – þarna er allt til alls. Við vorum á geðveiku hóteli – Beach Republic á Lamai ströndinni. Þjónustan, aðbúnaðurinn og viðmót starfsfólks var frábært. Morgunmaturinn var geggjaður sem auðvitað er lykilatrðið í þessu öllu.




Á Koh Samui æfðum við á tveimur stöðum – mjög mismunandi stöðum. Annarsvegar í Sky Gym með mögnuðu útsýni og góðum græjum en hinsvegar í skítugasta gymi Asíu þar sem svína- og fuglaflensan hefðu fengið minnimáttarkennd við heimsókn sína. Miltisbrandurinn hefði svo væntanlega drepist um leið og hann kæmi inn um bréfalúguna. Annars náði ég ágætis pumpi í þessu gymi.



Við leigðum okkur glæsilegan bíl frá Santa Clause car rental og keyrðum í kringum eyjuna. Ég var nett stressaður að fara keyra þarna enda vinstri umferð og sérstök umferðarmenning. Þetta hafðist allt og úr varð ansi góður rúntur um eyjuna.



















Frá Koh Samui flugum við beina leið til Bangkok og héldum þar til í fjóra daga. Við bókuðum flott hótel með góðum morgunmat og gymi. Þegar við komum fengum við þær fréttir að búið væri að fylla í öll herbergin á hótelinu en aðeins aðalsvítan væri laus – hún var því okkar. Við fengum því fylgd uppá efstu hæð hótelsins þar sem við gistum í góðu yfirlæti með geggjuðu útsýni yfir borgina.










Bangkok er sérstök borg. Þangað hef ég núna komið í þrígang en aldrei fundið mig almennilega í þessari borg. Borgin skiptist í nokkur svæði og helstu svæðin eru þar sem verslunarmiðstöðvarnar eru. Þar elskar heimamaðurinn að vera – inní verslunarmiðstöð þar sem sólin og hitinn eru ekki að angra hann. Á kvöldin eru svo útimarkaðir með öllu tilheyrandi. Það er fínt að vera í Bangkok til að gera góð kaup á mörkuðum, skoða einsog eitt Búddha hof og taka eina siglingu. Annars er þessi borg svolítið skítug og mannmergðin aðeins meiri en sveitastrákurinn sem hér skrifar höndlar dagsdaglega.
Frá Bangkok héldum við sem leið lá beint yfir í Stokkhólminn. Þar tókum við einn góðan dag í siðmenningunni við góðar aðstæður áður en við komum heim í fyrstu haustlægð ársins. Það voru blíðu móttökurnar.

Ferðin var frábær í alla staði. Þetta er ástæðan fyrir því að maður stendur í þessu hjakki alla hina daga ársins – til að geta leyft sér svona munað og þá er eins gott að njóta þess. Við gerðum nákvæmlega þar sem okkur finnst skemmtilegt og gefur okkur lífsfyllingu. Að komast út fyrir landsteinana, æfa, borða góðan mat, sjá eitthvað nýtt, gera eitthvað nýtt, vera saman og það sem er mikilvægast – að hlægja saman.

Reykjavík, 2. október 2015
-Ykkar maður, maður fólksins – Ofurgísli