Það iðar allt af lífi í Próteinhausaheimi. Nýir Próteinhausar bætast við á hverjum degi og virðist fjölgun þeirra hömlulaus með öllu. Þrátt fyrir virkilega ítarlega og vel unna rannsóknarblaðamennsku Kastljóss í vikunni er ekkert útlit fyrir að Próteinhausa stofninn minnki. Þvert á móti er líklegt að stofninn muni stækka á næstu misserum og um ókomna tíð. Venjulegt fólk mun streyma í verslanir og kaupa heilu dúnkana af kreatíni til að geta drukkið meira af ísköldu vatni og þá verður ekki skortur á glútamíni á neinu heimili landsins, enda þrá allir að ná værum ungbarnasvefni á hverri nóttu.
Bjössi í World Class sest í forsetastólinn á Bessastöðum með gullkórónu, íklæddur kafloðna ísbjarnarskikkju og með kristals töfrasprota
Útbreiðsla Próteinhausana er svo gríðarleg að útlit er fyrir að þeir fari skjóta rótum og koma sér fyrir á jafn ólíklegum stöðum og í úthverfaghettói Breiðholts. Það liggur nefnilega fyrir að World Class hyggst opna nýja líkamsræktarstöð í Breiðholtinu á næsta ári. Próteinhausar fagna því auðvitað en það er óhætt að segja að andstæðurnar muni mætast þegar þykkir Próteinhausar gera sig heimakomna á þetta svæði. Það virðist því fátt geta komið í veg fyrir óhefta stækkun og útbreiðslu Próteinhausa stofnsins hér á landi. Þetta endar væntalega á því að Bjössi í World Class sest í forsetastólinn á Bessastöðum með gullkórónu, íklæddur kafloðna ísbjarnarskikkju og með kristals töfrasprota. Þá fyrst verður reyndar gott að búa á Íslandi enda Bjössi magnaður náungi.
Við skulum annars fara yfir það helsta sem hefur gerst undanfarið í Próteinhausaheimi.
Ef það er ekki frétt um uppáhalds Próteinhaus síðunnar, Rúnar Monster, þá er náttúrulega ekkert að frétta. Það er alltaf hellingur að gerast hjá þessum über-svala náunga. Hann á auðvitað sitt eigið fatamerki, Akkeri Clothing, (ég meina hver á ekki sitt eigið fatamerki eiginlega?) og er byrjaður að selja vel svala boli og peysur. Ef Bjössi í World Class fer á Bessastaði, þá vill ég fá Rúnar Monster sem ráðherra. Rúnar er að selja þessi djásn á Bleksmiðjunni í Kirkjuteig 21.
Ofurgísla leiðist ekki að færa fréttir af Þrumuástu. Hérna er hún í einhverri ótrúlegri stellingu sem sjálfur David Attenborough hefur ekki áður séð – getur einhver útskýrt hvernig þetta er hægt? Mögnuð Þrumuásta!
Maðurinn með gullnu hendurnar, milljón dollara brosið og risastóru bicepana, Gummi Kíró, henti í eina dúndur myndlistarsýningu á dögunum. Hrikalega vígaleg og flott verk hjá þykka hnykkjaranum. Ofurgísli lét sig auðvitað ekki vanta á þennan viðburð. Próteinahausarnir kunna líka að drekka í sig menninguna einsog próteinsjeikana. Hægt er að skoða myndir frá sýningunni HÉR.
Gasman er mikill meistari og ætti að vera flestum kunnugur. Hnausþykkur og hrikalegur húmoristi. Hann fæddist hreinræktaður próteinhaus og ber öll einkenni þess mjög skýrt – það er mjög jákvætt. Gasman er að fara keppa og þá þarf hann að fá matinn sinn með einum eða öðrum hætti. Helvítis metnaður í kallinum greinilega fyrir þetta keppnistímabil – einsog Hlynur Kristinn bendir á.
Það er alltaf nóg að gerast hjá Konna og stelpunum í Iceland Fitness. Sagt var frá því í fréttum Próteinhausaheimi Vol.I að Konni hafi verið að gera nýtt myndband með stelpunum. Það kom út um daginn og má sjá það hér fyrir neðan. Ég tel það næsta víst að Konni sendi lið í næsta Wow Cyclothon. Vel gert Konni. Vel gert dömur.
Próteinhausar fengu góða gjöf í byrjun árs þegar sálfræðingurinn, próteinhausinn og snillingurinn Ragga Nagli gaf út bókina sína – Heilsubók Röggu Nagla. Að sjálfsögðu var Ofurgísli fljótur að verða sér úti um eintak og fór beint í uppskriftarkaflann. Mögulega eru allar útgefnar og óútgefnar uppskriftarbækur nú óþarfar, því í bókinni er tæmandi talning á öllum hollum, girnilegum og spennandi uppskriftum sem eru til í Próteinheimi og jafnvel víðar. Önnur efnistök bókarinnar eru mjög skemmtileg og fræðandi. Ragga Nagli er dúndur penni og setur efnið fram í bókinni á skemmtilegan hátt einsog henni er von og vísa – skyldueign fyrir alla Próteinhausa.
Þá er gaman að segja frá því að Ofurgíslinn ykkar er kominn utan á Perform verslunina í Kópavogi. Þar stendur hann vaktina alla daga, öll kvöld og allar nætur við hliðina á Kristínu Sveiney súperkroppi. Það er alveg þess virði að bruna í Kópavoginn til að bera þetta listaverk eigin augum.
Að lokum langar Ofurgísla að senda góðum félaga sínum dúndur afmæliskveðjur í tilefni dagsins. Einsog öll afmælisbörn gera þá tel ég næsta víst að SuperJules hafi stækkað í nótt. SuperJules er drengur góður með hnausþykk læri og stóran Gluteus Maximus. Það gerir hann auðvitað að enn betri manni. Til hamingju með daginn drengur minn. Alveg innilega.
– Tveir Ofur saman á sviðnu –
Ykkar einlægi Ofurgísli, maður fólksins
Reykjavík, 18. febrúar 2015.