UM MIG

Gísli Örn Reynisson Schramm heitir maður og er kallaður ofur; Ofurgísli.

Ofurgísli er eintak metnaðarfullt sem reynir að feta hinn gullna meðalveg í lífinu þótt öfgamaðurinn birtist reglulega í honum. Ofurgísli fæddist á elliheimilinu á Hornafirði og ólst þar upp við bestu mögulegu aðstæður. Hann er sonur harðduglegra, kærleiksríkra og hvetjandi foreldra og á einn eldri bróðir, Gunnar Stíg, er síðar varð prestur. Annar ættarleggur hans liggur norður til Þórshafnar en hinn suður í Mýrdal og út fyrir landsteina og allt til Lübeck í Germaníu, þar sem ættarnafnið Schramm á sínar rætur. Ofurgísli hefur fest ráð sitt og er í samvistum með Helen Halldórsdóttur, tannsmið. Hún er og afburðar höfuðnuddari.

Ofurgísli er mikill og vel mannaður. Er hann hvítur á hár og bjartur að álitum. Mjög er hann hölkinrassa og rammur að afli. Ofurgísli  er svo mikill að sjá að menn þykja öngvan fegri karlmann séð hafa. Þykir hann og líklegur til giftu. Ofurgísli ber nokkur vopn í belti sínu, sum vænlegri en önnur. Öflugasta er sjálfsaginn og þykir hann með eindæmum ósérhlífinn.

Það eru mörg störfin sem Ofurgísli hefur tekið sér fyrir hendur. Sjómennska, kjötvinnsla, járnabinding, sælgætisgerð, verslunarstörf og knattspyrnuþjálfun svo fátt eitt sé nefnt. Í dag starfar Ofurgísli sem lögmaður hjá stærsta tryggingafélagi á Íslandi – Vátryggingafélagi Íslands hf.

Á milli þess sem Ofurgísli er í vinnunni og sinnir lögfræðilegum málefnum trítlar hann um í æfingasalnum í World Class Laugum, oftast nokkuð sveittur. Ofurgé-inu líður hvergi betur en í miðju drop-seti í æfingasalnum.

Það var eftir skyndiákvörðun í byrjun árs 2011 sem Ofurgísli ákvað að keppa í fitness (Classic Bodybuilding) á Íslandsmóti IFBB um páskana það ár. Hann var rétt búinn að ganga fram af sér dauðum (bókstaflega) þegar hann loksins steig á sviðið. Það var lærdómsríkt. Þegar menn detta af hjólinu standa þeir upp, fara uppá hjólið aftur og halda áfram. Það gerði Ofurgísli og fór aftur á svið í nóvember 2012 og varð í 1. sæti í -90 kg. flokki í vaxtarrækt á Bikarmóti IFBB og annar í heildarkeppni vaxtarræktarmanna (Overall). Næst fór Ofurgísli á svið á Íslandsmóti IFBB um páskana 2014 og vann -90 kg. flokkinn og vann overallið í þetta skiptið eftir harða keppni. Viku seinna var Ofurgísli mættur til Austurríkis og Ungverjalands að keppa á alþjóðlegum fitness- og vaxtarræktarmótum. Gekk það með mklum ágætum og í báðum tilfellum var annað sætið í -95 kg. flokki í vaxtarræktinni staðreynd.

Ofurgísli hefur jafnan haft orð Napóleons I. Bonaparte herforingja og Frakklandskeisara að leiðarljósi; „Impossible n’est pas français.”

10335809_10152372995406768_991231392_n-1

-ofurgé.