Ofurgísli er að skila enn einu árinu í myljandi lífsgróða. Árið 2017 var ekki bara bomba – það var flugeldasýning. Það getur verið gott að loka augunum, setja í latsana og fara yfir árið í huganum. Við erum fljót að gleyma og tökum þessu öllu sem sjálfsögðum hlut. Verum þakklát, sýnum auðmýkt og ekki gleyma hnébeygjunni.
Hafandi sagt þetta ætlar maður fólksins, ykkar maður, að fara yfir árið 2017 í nokkrum orðum en aðallega myndum. Árið var algjört ofur og fyrir margra hluta sakir merkilegt, eftirminnilegt og gjöfult.
– ÞETTA VAR ÁRIÐ 2017 –
Árið 2017 er árið sem OG fór á skeljarnar á bakvið Bergárfoss, Hornafirði. Þótt svarið hafi á endanum verið JÁ, var fyrsta svar: “Ertu ekki að grínast!?!” Lucky OG – ég elska þig Helen!
Árið 2017 er árið sem OG uppgötvaði reiðhjólið, keypti racer og hjólaði svo hringinn í kringum landið með trylltum hópi samstarfsfélaga í Wow Cyclothon – eitt það skemmtilegasta sem OG hefur gert.
Árið 2017 er árið sem OG fékk þann heiður að verða guðfaðir litla frænda og fékk um leið nafna – Erni Stígsson. Fyrir þetta er ég gríðarlega stoltur.
Árið 2017 er árið sem kirkja OG fluttist búferlum í Kópavoginn. Seldum í Rauðagerði og keyptum nýtt í Naustavör. Upprennandi hverfi og stutt að synda yfir í Nauthólsvíkina.
Árið 2017 er árið sem OG hélt áfram að hamra járnið. Missti varla úr æfingu og hef aldrei verið í jafn góðu alhliða formi. Þetta var ár bætinga og árið 2018 verður klárlega ár enn frekari bætinga #Teamperfom.
Árið 2017 er árið sem OG tók heimskulega ákvörðun þegar hann var plataður til að synda í Fossvogssundinu. Sjósund yfir voginn og til baka. Lífróður frá fyrsta sundtaki. Hef sjaldan verið jafn pumpaður og þegar ég náði föstu landi aftur. Hver einast vöðvaþráður líkamans útþaninn.
Árið 2017 er árið sem Ofurgísli og Hella fóru til New York, Kölnar og Riga auk ferðalaga hér heima. Allt frábærar ferðir og hellingur af góðum minningum. Á Manhattan hjóluðum við allar okkar ferðir – mæli með að leigja hjól í New York. Að ferðast er góð skemmtun og er stefnan sett á fleiri ferðalög árið 2018.
Það er óhætt að segja að árið 2017 hafi verið magnað! Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir það gamla og sjáumst með kassann úti á nýju ári. Ofurgísli er þarna úti og er alltaf tilbúinn að gefa fimmu, gefa góð ráð og gefa allt í þetta.
Reykjavík, 1. janúar 2018.
-Ofurgísli, maður fólksins.