LAGABÁLKUR LÍKAMSRÆKTARMANNSINS – KAFLI I

Til að ná árangri í líkamsrækt gilda ákveðin lög – Lagabálkur líkamsræktarmannsins. Þótt lagagreinarnar séu ekki tæmandi talning á þeim skyldum sem hvíla á líkamsræktarmanninum, er þar skýrt kveðið á um 10 atriði, sem er bæði skylt og nauðsynleg að fara eftir. Ekki er sérstaklega kveðið á um refsingar í þessum lögum, en sé þeim ekki fylgt skal gera ráð fyrir árangursleysi, lækkaðri grunnstemningu og brostnum vonum – í enn eitt skiptið. Þá skal tekið fram að lög þessi gilda um alla þá sem einhvern minnsta áhuga hafa á heilsueflandi lífsstíl eða vilja koma sér þangað – meðalmanninn sem er að keyra sig í gang. Ofurgísli er maður fólksins og gleymir ekki meðalmanninum.

Ofurgísli ætlar í tveimur pistlum að renna yfir þessi einföldu atriði með ykkur. Flest eru þau kunnugleg, en vilja þvælast fyrir okkur og jafnvel vefjast fyrir okkur líka. Ástæðan er einfaldlega þessi nútíma markaðsvæðing líkamsræktar og heilsueflandi lífsstíls – það er búið að flækja þetta fyrir okkur. Það eru of margir að hala inn krónum og pesetum vegna meintrar fáfræði okkar í mataræði og heilsueflandi lífsstíl. Almennt veit fólk hvað er æskilegt að gera og hvað ekki – líka meðalmaðurinn. Hinsvegar þarf stundum að minna sig á það og það ætlar maður fólksins að gera hér.  

– Kafli I –

I. Borða skal nóg af próteini

Þetta er ákveðinn lykill. Það er enginn að tala um að belgja sig út af próteinríkum mat við öll tækifæri heldur reyna að hafa prótein almennt í forgrunni í næringunni – meira en minna. Próteinið er svo vel úr garði gert að það gefur mestu saðsemistilfnninguna af öllum orkugjöfunum og því þarf í raun að innbyrða færri hitaeiningar til að verða saddur og líða vel. Þá eru ótaldir aðrir góðir kostir próteins einsog uppbygging vöðva. Það er prótein út um allt, bara að opna augun. Egg, eggjahvítur, kjúklingur, kalkúnahakk, kotasæla, skyr, próteindrykkir, fiskur, hreint kjöt, graskersfræ og hveitikím. Allt eru þetta dæmi um tuddagóða próteingjafa.  

 

II. Millimál

Það er gríðarlega algengt að millimálin verði útundan hjá fólki og í staðinn er haldin uppskeruhátíð í hádeginu. Hvort sem markmiðið er að bæta á sig kjöti, viðhalda eða trimma sig niður er mikilvægt að halda millimálinu inni, og érstaklega fyrir þá sem vilja bæta á sig kjöti eða viðhalda. Muna eftir millimálinu – og muna að mataræði er annað orð yfir skipulag. Ef millimálið er ekki fyrirfram skipulagt eru allar líkur á að það verði útrunninn Sóma samloka, Homeblest kex, súkkulaðirúsínur eða önnur einföld kolvetni sem rífa upp blóðsykurinn með tilheyrandi orkuleysi og holningu sem enginn sækist eftir. Ekki skíta hérna – klósettpappírinn er uppseldur á Covid tímum.

 

III. Takið inn góða fitu

Ofurgísli er alltaf að reyna að einfalda hlutina fyrir sínu fólki. Höfum þetta líka einfalt. Aldrei leyfa ísskápnum þínum að vera án Lýsis eða Omega-3 (bæði betra). Ísskápurinn á það ekki skilið, nema hann virki ekki. Takið góðan gúlla 1-2 á dag. Það virðast því miður allir steinhættir að borða fisk nú til dags og þess vegna er skylt (ekki valkvætt) að hafa lýsi/omega-3 í mataræðinu.

Þessi fitan styður við allt; gerir allt betra. Hún ýtir undir efnaskiptin í líkamanum, hjálpar til við brennslu líkamans. Nauðsynleg fyrir meltingarkerfið okkar. Jafnar blóðsykur, ætti að draga úr matarlöngun. Þá er ótalið hvað þessi ofurfæða gerir fyrir bólgur, heilann, æðakerfið o.fl. 

 

IV. Skipulagið er Champ

Þetta er gömul tugga sem er gott að minna sig á; “Ekkert skipulag – ekkert sixpack (e. if you fail to prepare you prepare to fail). Það er ekki nóg að eiga sætar kartöflur, kjúklingabringur og salat inní ísskáp – það þarf að elda þetta og gera klárt svo hægt sé að renna þessu niður. Sama á við um æfingafötin. Sixpackið lætur ekkert frekar sjá sig þótt við eigum nýja Nike æfingaskó og óhlaðin þráðlaus heyrnatól. Undirbúið ykkur kvöldið áður. Preppið matinn og hafið hann kláran – kvöldið áður. Setjið í töskuna og takið hana með í vinnuna eða skólann. Skipulagið er Champ – óreiðan er fallsæti. 

 

V. Cardio æfingar hluti af æfingaprógraminu

Það hefur margsannað sig að brennsluæfingar skila. Að henda inn 30 mínútum eftir lyftingar 2-3 í viku mun skila sér – Ofurgísli ábyrgist það. Að henda í auka-cardio-æfingu gefur. Það gefur jafnvel meira en jólasveinninn gerir í desember mánuði. Það væri hægt að spyrja alla helstu reynsluboltana hvað þeir hafa gert til að komast í þetta “aðeins extra” form og svo viðhalda því; lýgilega margir nefna að brennslan verði að vera hluti að æfingunum. Spurjið bara Jóa Fel – hann veit það manna best.

Kafli II verður birtur von bráðar þar sem fimm fleiri og jafnvel enn þarfari reglur koma fram. Missið ekki af því.

Kópavogur, 19. mars 2020
-Ofurgísli, ykkar maður – maður fólksins