Það hreinlega iðar allt á lífi í Próteinhausaheimi. Bikarmót IFBB er nýafstaðið þar sem nýjar stjörnur fæddust og gamlar kempur fylgdust spenntar með. Ofurgéið hafði það náðugt uppí sal og lét sér nægja að finna þefinn af Jan Tana brúnkukreminu á meðan keppendurnir trítluðu á sviðinu og negldu í pósurnar. Mótið var með smærra sniði en oft áður og umgjörðin látlaus. Það er eitthvað sem segir mér að þetta hafi verið lognið á undan storminum og að Íslandsmótið næsta vor verði vel yfir 12 vindstig. Því skal þó haldið til hafa að Perform og Flex básarnir voru að gera gott mót síðustu helgi. Það sem helst stendur uppúr eftir mótið er að unga kynslóðin stal alveg senunni í karlaflokkunum sem lofar góðu fyrir sportið hér á landi. Förum stuttlega yfir það sem undirrituðum punktaði niður hjá sér á mótinu.
Í sport fitnessinu var það nýliðinn Sindri Már – krúttlegi víkingurinn – sem vann heildarkeppnina og var hann vel að þeim sigri kominn. Þessi strákur er gríðarlega samviskusamur, jákvæður og metnaðarfullur. Það verður gaman að fylgjast með krúttlega víkingnum í sportinu næstu misseri.
Í unglingafitness flokki var það bráðefnilegur Ingi Sveinn Birgisson sem vann flokkinn sinn – mjög sterkur flokkur og því öflugur sigur hjá Selfyssingnum. Hrikalega flottur skrokkur þar á ferð sem er til alls líklegur. Í fullorðins fitnessflokki stóð helskorinn Sveinn Már uppi sem verðskuldaður sigurvegari. Það voru því unglingurinn Ingi Sveinn og Sveinn Már sem börðust um heildarsigurinn í fitnessinu og stóð unglingurinn uppi sem sigurvegari eftir harða keppni. Vel gert Selfoss. Vel gert Skímó!
Mótið var með smærra sniði en oft áður og umgjörðin látlaus. Það er eitthvað sem segir mér að þetta hafi verið lognið á undan storminum og að Íslandsmótið næsta vor verði vel yfir 12 vindstig.
Í vaxtarrækt unglinga voru flottir skrokkar á sviðinu þar sem öflugur og tinnuköttaður Gunnar Stefán Pétursson endaði sem bikarmeistari í sínum flokki. Í -90 kg. flokki í vaxtarrækt var aðeins einn keppandi – en hann var góður. David Nyombo Lukonge mætti helskafinn og væntanlega í sínu besta formi hingað til. Þessi drengur mætir alltaf á svið og er alltaf í dúndur formi.
Vilmar nokkur Valþórsson steig svo síðastur á svið – og það með látum. Hann var eini keppandinn í +90 kg. flokki í vaxtarrækt, en það var líka alveg nóg. Á sínu fyrsta móti kom fram næstum fullskapað og risastórt vaxtarræktardýr. Fyrir utan sinn flokk vann Vilmar heildarkeppnina í vaxtarræktinni – vel gert Vilmar. Viktorý-Vilmar! Það verður gaman að takast á við þetta dýr á sviðinu einn daginn og á sama tíma verður mjög spennandi að fylgjast með því þroskast, stækka, mótast og breytast í skrímsli.
Annað sem vert er að minnast á er árangur Helga Sigurðssonar, líkamsræktarmanns og einkaþjálfara í World Class Laugum. Maðurinn er 55 ára gamall og var einn sá al-skornasti á sviðinu. Tinnuköttaður! Hann veitti ungu strákunum harða keppni og endaði í 4. sæti í sínum flokki. Fyrir utan það að vera ljónmassaður og helskorinn 12 mánuði á ári er Helgi alveg svakalega mikið ljúfmenni og mikil fyrirmynd fyrir okkur ungu mennina.
Stelpurnar okkar fóru svo á svið daginn eftir strákunum og voru stórglæsilegar. Þarna voru öflugir flokkar með grjóthörðum stelpum. Allt eru þetta stelpur í ofurgóðu formi. Með rosa mikið hár. Í rosa flottum skóm. Með rosa langar neglur. Og rosa stór augnhár. Með helling af glansandi demöntum á rosa flottu bikiníi. Og allar brosa þær rosa stóru og fallegu brosi. Þær ættu því allar að fá medalíu og derhúfu fyrir þátttökuna einsog pollarnir á gamla Shellmótinu í Vestmannaeyjum. Að öllu gríni slepptu þá öfunda ég dómarana ekki að þurfa að skera úr á milli keppenda í þessum flokkum enda eru stúlkurnar hver annarri betri. Það er gríðarlega mikil gæði í kvennaflokkunum hér á landi einsog margoft hefur sýnt sig á mótum erlendis. Íslenska kvenfólkið er alltaf flottast og fallegast og um það verður ekki deilt!
Sjá má fleiri myndir frá mótinu á heimasíðu Fitness frétta – í skuggalega góðum gæðum.
Reykjavík, 27. nóvember 2015.
Ykkar maður, maður fólksins – Ofurgísli.