Þegar orkan hjá Ofurgísla er farin að minnka eftir margra vikna stanslaus átök fer hann í móður- og föðurhús á Hornafirði. Þarna eru kjöraðstæður til að hlaða á tankinn fyrir næstu vikur. Maturinn hjá mömmu og pabba, hreina loftið við sjóinn og orkan frá fjöllunum er með ólíkindum öflugur powerkokteill. Ég verð samt að viðurkenna að það er aðallega maturinn sem dregur mig mest heim í fjörðinn fagra. Eins og þjóðhöfðingar gera þá boða ég alltaf komu mína heim með góðum fyrirvara svo það sé nú alveg öruggt að humarinn sé nýveiddur, lambafillé-ið sé af nýslátruðu og rúmið uppábúið þegar ég mæti á svæðið – ekki það að ég sé að gera einhverjar kröfur. Kominn á þennan aldur er nefnilega gott að vera yngsta barnið og litli strákurinn hennar mömmu.
Ofurgísli og Ofurhella gerðu sér einmitt ferð til Hornafjarðar síðustu helgi til að komast í ofangreindan ofurkokteil. Það er óhætt að segja að við fengum að smakka á ofurkokteilnum. Aðstæður til orkusöfnunar voru allar hinar bestu og spái ég gríðarlegum bætingum í ræktinni á næstunni. Á milli þess sem við repsuðum skonsur, tertur og rækjukokteila þá supersettuðum við humri í öllum mögulegum útgáfum. Umfram orka var síðan leyst úr læðingi í Sporthöllinni, sem er líkamsræktin þar eystra og er full af anda.
Þessi færsla er annars tileinkuð öllum þeim sem eru að fara keppa á Norðurlandamótinu í fitness og vaxtarrækt eftir tæpar tvær vikur og eru sokknir djúpt í matarklámið.
– Mamma dúndraði í eina netta brauðtertu fyrir Ofurgillann sinn –
– Móðir mín er kjarnakona mikil og hér ákvað hún að skella í nokkrar lummur. Það tók sig ekki að byrja fyrir minna en tvöfalda uppskrift sagði hún –
– Morgunmatur. Þarna er Ofurgéið á heimavelli. –
– Magma Energy hefði getað virkjað heilt orkuver með umfram orkunni í Ofurgísla. Hér er hann að tappa orkunni af í Sporthöllinni –
– Áður en ég vissi af var ég dottinn í eina Front Flying Double Bicep bakvið Bergárfoss –
– Fágaðri og vandaðri pósa hjá Hellu en Ofurgísla –
– Hægeldað hvítlaukslambalæri á þunnskornu kartöflubeði í steinselju beið okkar í stofunni –
– Rækjukokteill í forrétt –
– Kátur, íbygginn, hugsi, ánægður, svangur – en samt ekki –
– Þá var á borð borinn grillaður humar og humarréttur í rjómasósu með trufflusveppum. –
– Pabbi gerir albestu humarsúpu sem hægt er að komast í. Ég held að hann nostri meira við hana en nokkurn tíma mömmu –
– Almenn gleði á fallegu fjölskyldunni. Djöfullinn, ég þarf greinilega að fara í ljós –
-Ofurgísli, maður fólksins.