Það vantaði ekki kjötið á Hereford Steikhúsi um daginn. Þarna vorum við mættir nokkrir hel-kjötaðir, köttaðir og massaðir, tilbúnir að raða í okkur kjötmetinu í forrétt og aðalrétt. Sjálfur kjötaði ég mig upp af nokkur hundruð grömmum af Rib-Eye sem ég baðaði uppúr bernaise. Það var svo ís og súkkulaðikaka í eftirrétt – nema hjá Magga Sam. Hann fékk sér humarsúpu í eftirrétt og í forrétt reyndar líka. Kröyerinn datt reglulega í sitjandi single arm bicep pósu. Grímsi og Júlli Þór tóku þátt í farsímavæðingu unga fólksins og Instagrömmuðu matinn sinn. Andri Björns stækkaði örugglega helling á þessu eina kvöldi og allir voru hrikalegir.
Þjónustan hjá strákunum á Hereford var uppá “100-kíló-í-bekk” og maturinn líka. Umræðuefnið var allt yfir 100 kíló og ekkert yfir 10% í fitu. Menn super-settuðu nokkrar góðar æfingasögur, tóku drop-set á dollunni og ræddu um síðustu stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Allt fór þetta vel fram og menn fóru heim – tilbúnir að stækka enn frekar.
Stórgott kvöld og Ofurgísla er farið að hlakka til næstu kjötveislu.



