Nú er keppnistímabil líkamsræktarfólks 2014 búið og flestir farnir inní svokallað off-season. Sumir eru mjög sáttir með árangurinn á árinu og eru hátt uppi þessa dagana en aðrir eru kannski eins sáttir með árangurinn – hefðu viljað gera betur á sviðinu og ná í eitthvað betra sæti og jafnvel bikar. Ég þekki báðar þessar tilfinningar nokkuð vel.
Mér hefur almennt gengið vel á sviðinu og unnið einhverja sigra. Fyrir mér er samt stærsti sigurinn að hafa ekki gefist upp á þessu sporti eftir fyrsta mót. Þá hafði ég lagt hrikalega mikið á mig og allt leit út fyrir að ég gæti gert gott mót. Þegar 2 vikur voru í mótið var ég kominn í þessa hrikalegu ofþjálfun. Þegar kom svo loksins að mótinu hafði ég tapað mörgum kílóum af kjöti á nokkrum dögum. Líkaminn var kominn í einhverja steik. Alltof mikið eldaða – Well Done. Ég fór samt á svið en gekk ekki vel og komst eðlilega ekki í úrslit í mínum flokki. Það voru gríðarleg vonbrigði eftir allan undirbúninginn og alla vinnuna fyrir þetta mót. Ég neitaði hinsvegar að gefast upp. Ofurgísli veit ekki hvað er að gefast upp. Ég hélt áfram að æfa og æfði ennþá betur en ég hafði gert. Borðaði ennþá betur en ég hafði gert. Varð ennþá grimmari en ég hafði verið. Ég gerði aðra tilraun við sviðið einu og hálfu ári seinna einhverjum 13 kílóum þyngri og varð Bikarmeistari í -90 kg. vaxtarrækt. Það var klikkað. Síðan varð ég Overall meistari í vaxtarræktinni núna í apríl 2014. Það var sturlað.
Fyrir ykkur sem eruð að stíga ykkar fyrstu skref í sportinu – já og allir hinir líka – þá þýðir ekkert að svekkja sig of mikið þótt árangurinn hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Þetta er mjög erfið og brögðótt íþrótt. Það getur margt sem getur klikkað og oft verður útkoman ekki eins og menn höfðu séð fyrir sér. En góðu fréttirnar eru alltaf að það kemur mót eftir þetta mót og svo kemur annað mót eftir næsta mót og nokkur mót eftir það, o.s.frv. Eina leiðin er að koma sér í gang aftur, æfa einsog brjálæðingur og koma betri á sviðið næst.
Að lokum kem ég með eina mjög svo lærdómsríka dæmisögu úr mínu annars stórbrotna lífi: Þegar ég var lítill strákur á Hornafirði að læra að hjóla datt ég einu sinni af litla bláa hjólinu mínu (bara einu sinni) og endaði ofan í djúpum og skítugum drullupolli. Ég leyfði mér að grenja smá (það er í lagi að grenja smá) en stóð síðan strax upp og fór beint upp á hjólið aftur og hélt áfram að æfa mig að hjóla. Í dag get ég hjólað allt frá Mjódd og niður í Skeifu – með nokkrum stoppum samt.
Reykjavík, 25. nóvember 2014
-Ofurgísli, maður fólksins.