Uppskeruhátíð hjá fólki í niðurskurði var um helgina – aftur. Aðeins tveimur vikum eftir Norðurlandamótið var komið að Bikarmótinu. Flestir sem stigu á svið fyrir tveimur vikum mættu aftur núna um helgina þótt sumra væri sárt saknað.
Það var hellings stemmari í húsinu bæði kvöldin og mikil barátta í mörgum flokkum. Það sem stóð uppúr eftir helgina, fyrir utan auglýsingarnar af sjálfum mér, var að þeir sem kepptu á Norðurlandamótinu komu nánast allir betri til leiks núna tveimur vikum síðar. Margir komu fylltari, aðrir þurrari og skornari. Engin kom samt fullari. Það er líka skemmtileg staðreynd að margir góðvinir síðunnar gerðu gott mót um helgina.
Föstudagurinn var strákadagur og stigu gamlar kempur og nýjar á sviðið með góðum árangri. Það var gríðarleg barátta í +90 kg. flokknum þar sem Maggarnir Bess og Sam háðu gríðarlega orrustu um bikarinn. Báðir komu þeir töluvert betri á svið núna en þeir voru á Norðurlandamótinu. Bess skornari og þurrari en SAM stærri og fylltari. Gunni flugdreki var líka mun þurrari og skornari núna. Eftir gríðarharða orrustu var það BIGSAM sem endaði á að taka flokkinn og Overallið. Vel gert vinur og æfingafélagi! David Alexander Panamaprins og nýkrýndur Norðurlandameistari tók -90 kg flokkinn eftir óvænta innkomu frá hrikalegum nafna sínum, David Nyombo Lukonge. Það þarf síðan varla að koma á óvart að Mark Bargamento tók unglingaflokkinn – með vinstri. Mark var ennþá betri núna en á NL mótinu.
World Class vélin, Gunni THE CAT Sig., landaði bikarnum í fitnessi karla (Classic bodybuilding). Þeir voru reyndar aðeins tveir í flokknum, en báðir mjög góðir. Þetta var því hörku vinnusigur hjá mínum manni, ‘THE CAT‘. Það er samt umhugsunarefni hvað fáir strákar voru í fitness karla í ljósi þess að þetta var stærsta bikarmót frá upphafi. Unglingarnir náðu þó að halda uppi heiðri flokksins því þeir voru töluvert fleiri. Norðanmaðurinn Snæþór Ingi landaði bikarmeistaratitlinum nokkuð örugglega og í öðru sæti var mjög efnilegur Teitur nokkur Arason.
Það var töluverður fjöldi stuttbuxna í sport-fitnessinu og var flokkurinn hæðaskiptur. Það voru nokkrir strákar þarna sem áttu frekar heima í fitness flokknum. Voru einfaldlega of stórir, sterkbyggðir og grófir fyrir flokkinn. Menn verða bara að hlaða nokkrum plötum á hnébeygjustöngina fram að næsta móti, smeygja sér svo í lendaskýluna og mæta vel skafnir á svið. Lægri sport-flokkurinn var töluvert sterkari og þar halaði félagi Viktor Berg niður einum bikarmeistaratitli í sínum flokki og í Overall-inu líka. Það var síðan gaman að sjá ofurhressan nýliðan, Jón Björgvin Jónsson, vinna hærri flokkinn. Hans fyrstu skref í sportinu og strax kominn með bikar. Til hamingju strákar.
Stelpurnar áttu síðan laugardagskvöldið. Ofurhella skipaði mér að halda fyrir augun þegar unglingaflokkurinn í módel fitness (16-18 ára) var á sviðinu. Ég veit þar af leiðandi ekkert um þennan flokk og get ekkert skrifað um hann. Ég fékk síðan fullt leyfi til að horfa á aðra flokka. Þar var hellingur af þrusuflottum keppendum. Það var gaman að sjá Unu Margréti koma til baka eftir Norðurlandamótið í Alpha formi og vinna unglingafitnessflokkin – hún er #UNACHAMP. Þær voru flottar dömurnar í Olympíufitnessinu þar sem grjótmössuð Elma Grettis varð Bikarmeistari. Það kom engum á óvart þegar Ranný Kramer vann 35+ flokkinn í fitnessinu. Magnað formið á henni enda vann hún heildarkeppnina líka. Vinkonan mín úr Laugum, Linda Jóns, kom í leiftrandi formi og tók þriðja sætið í +35. Í öðrum fitnessflokkum voru Guðrún Hólmfríður og Sandra Ásgrímsdóttir Champar – vel gert stelpur mínar.
Módelfitness flokkarnir voru stórir (alltsvo fjölmennir) og margir. Ég var svolítið bugaður og eiginlega kominn með móðu undir linsurnar vegna hungurs þegar úrslitin voru í þessum flokkum. Ég tók samt nokkra punkta. Kristín Guðlaugs varð Bikarmeistari í hrikalega sterkum flokki þar sem Eva Fells varð önnur. Þá vann gullsmiðurinn glæsilegi, Unnur Óla, sinn flokk þar sem Sigrún Morthens varð önnur. Nú, þá liggur fyrir að Gyða Hrönn og Rannveig Hildur eru einhverjum bikurum ríkari í dag og varð Rannveig H. Overall meistari í Módelinu. Mér fannst líka mjög gaman að sjá Ale Sif stíga svið – í ofurgóðu formi.
Hafandi sagt það tók ég nokkra fleiri punkta:
– Það er skemmtileg staðreynd að Maggi Bess og Maggi Sam voru jafnþungir í vigtun fyrir Bikarmótið en í vigtun fyrir Norðurlandamótið tveimur vikum áður var 10 kílóa munur á þeim.
– Una er sigurvegari einsog allir vita. Í dag er hún ríkjandi Íslands-, Bikar-, ArnoldClassicEurope- og Evrópumeistari í fitness unglinga. Hún er #UNACHAMP. Ha, sagði einhver íþróttamaður ársins hjá IFBB?
– Perform básinn var skuggalega sexý um helgina.
– Það er ljóst að dómararnir vilja ekki of stóra stráka í Sport-fitnessið. Það verða því eflaust fleiri í Classic Bodybuilding á næsta móti.
– Helgi Sigurðsson var einn skornasti maðurinn á sviðinu. Hann er ekki nema rétt 54 ára gamall. Þvílíkur maður.
– Hvenær kemur hamborgarabíll fyrir utan Háskólabíó á svona kvöldum?
– Strákarnir í World Class rúlluðu upp þessu móti. Allir strákarnir sem unnu æfa í World Class nema Snæþór Ingi. Hann er undantekningin frá meginreglunni. Æfa stóru strákarnir í World Class?
– Það voru nokkrar góðar innkomur á mótinu. BigSam kom með góðan frumbyggjadans. Mark Bargamento var á mjúku nótunum í rútínunni og skilaði því svona líka vel. Það þurfti að hreinsa burt mörg brædd hjörtu af gólfinu eftir kvöldið skilst mér. Svo var það litli ofvirki sport fitness strákurinn kom skoppandi inn á svið með látum – í einhverju heljarstökki og flikkflakki. Hann þarf svo bara aðeins að vinna í Deltunum fyrir næsta mót og þá er hann ansi líklegur.
– Einar Guðmann er með mest róandi rödd sem ég veit um – “Og þið megið slaka á.”