Ofurgísli mælir með morgunæfingum

Ofurgísli veit fátt betra en að æfa eldsnemma á morgnanna. Ónærður, á fastandi. Vakna á undan öllum. Líka blaðberum Moggans. Verða sveittari á undan öllum. Mæta  í vinnuna pumpaðri en Michellin maðurinn og ferskari en nýskorinn ananas. Svona byrja allir dagar hjá Ofurgísla. Þetta er rétt byrjun á deginum.

Í raun eru morgunæfingar orðnar áhugamál innan lyftingaáhugamálsins hjá Ofurgísla. Margir halda því fram að það sé ómögulegt að lyfta lóðum án þess að vera búnir að borða allavega 2500 kaloríur, kúka tvisvar yfir daginn og hlusta á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hversu oft hef ég fengið að heyra: “Ég bara get ekki æft á morgnanna!” – “Mér verður alltaf svo óglatt þegar ég æfi á morgnanna.” – “Vinur minn sagði mér að ég yrði að borða áður en ég færi á æfingu, annars, annars, gerist eitthvað??” – “Ég las á internetinu að ég væri að skemma fyrir mér með því að fara á æfa án þess að vera búinn að borða.” – “Það gerir víst meira ógagn en gagn að æfa á fastandi, það heyrði ég allavega.” -Ég heyri þetta alltof oft – oftar en ég nenni!

Auðvitað eru bestu kaupin í Conor pakkanum – fæst í PERFORM.IS

Orðið þarna úti virðist því vera að það geri ekkert gagn að æfa á morgnanna – jafnvel skemmi fyrir. Þessu hefur verið troðið uppí okkur og annaðhvort þorum við ekki að mæta á morgnanna af ótta við að veslast upp og deyja. Eða hitt. Við mætum á morgnanna og trúum þessu bulli að það geri okkur ógagn að æfa á morgnanna, við séum of þreytt til að geta hreyft okkur og hættum eftir fyrstu morgunæfinguna – placebo áhrifin af þessu bulli.

Ég er ekki að segja að það henti öllum að æfa á morgnanna og auðvitað skiptir máli hvert markmið æfinganna er. Styrk og hraða er hugsanlega betra að æfa síðdegis á fullum tanki. Brennsla, mótun, pumpið, six-packið og allt þetta fallega virðist hinsvegar fullkomið fyrir fastandi morgunæfingar – Ofurgísli kvittar uppá það!

Það er óhætt að segja að í hinum stóra heilsuheimi ríkir alls engin samstaða um árangur þess að æfa á morgnanna – og alls ekki þegar æft er á fastandi. Það er hægt að lesa bæði biblíusögur og draugasögur um ágæti þess að æfa á þessum tíma. Eina leiðin til að komast að því hvort þær henti er að prófa að æfa á morgnanna. Gera það með opnum hug og gefa því séns. Það tekur sirka tvær vikur að venja líkamann á að vakna eldsnemma til að taka á því – það er vissulega erfitt fyrstu dagana. Eftir þessar tvær vikur kemst það hinsvegar í vana hjá flestum og verður jafnvel fljótt ávanabindandi – passið ykkur! Núna hefur Ofurgíslinn ykkar æft nær eingöngu á morgnanna í að verða hálft ár og sjaldan verið í betra alhliða formi. Líkaminn virðist elska þessar morgunæfingar jafn mikið og hugurinn – þetta er að gefa. Trúið mér!

Ofurgísli að hamra járnið í NYC – mættur á undan öllum þar líka
OG hjólar alla morgna í ræktina – ekkert mál enda allar götur auðar kl. 6:00

Morgunæfingarnar krefjast smá skipulags – en árangur kemur ekki án skipulags.  Ekkert skipulag – ekkert sixpack! Það þekkja allir sem eitthvað hafa stundað líkamsrækt. Skipulagið felst í því að gera æfingatöskuna klára fyrir svefninn, gera fötin klár fyrir vinnuna/skólann og gera morgunmatinn tilbúinn. Það þýðir ekkert að fara sofa og hafa allt óklárt. Þá minnka líkurnar töluvert á að þú farir á fætur og komir þér af stað. Og það er líka eiginlega öruggt að nærbuxurnar verði eftir heima ef þær eru ekki gerðar klárar kvöldið áður – það er nett pirrandi að vera á mikilvægum fundi með slaufuna hangandi undir borðinu. Loks er það algjört lykilatriði að fara ekki of seint að sofa. Það er ekkert að gerast eftir klukkan ellefu á kvöldin – láttu nægja að horfa á tvo þætti á Netflix, það gerir engum gott að taka heilalaust þáttamaraþon kvöld eftir kvöld.

Ég vakna um kl. 5:30 á morgnanna og þá held ég alltaf sömu rútínu. Alltaf sömu aðgerðirnar í sömu röð – þá gleymist ekkert og allt gengur rétt fyrir sig. Fyrir æfingu fæ ég mér annaðhvort Amino Energy eða N.O.-Xplode og set út í það BCAA amínósýrur og Glútamín. Þegar ég vill vakna almennilega eða svitna ofurmikið fæ ég mér HyperShred Edge brennslutöflur. Svo er mikilvægt að næra sig strax eftir æfinguna og fá hraðvirk prótein inn í kerfið. Þetta er uppskrift af árangri sem ætti að koma fram í öllum aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Einnig: Uppskrift að besta forminu má lesa HÉR.

Það eru ekki margir um lóðin snemma á morgnanna
Morgunkokteill Ofurgísla

En hvað er svona frábært við þessar morgunæfingar kunna einhverjir að spyrja sig. Að vakna um miðja nótt til að skríða inní líkamsræktarsal. Er þetta ekki bara algjört kjaftæði? Þeir sem gefa því séns að æfa á morgnanna eru fljótir að fatta ágæti þessara æfinga, en ég tók líka saman nokkra punkta máli mínu til stuðnings, sbr. eftirfarandi:

  1. Færri að æfa – tækin alltaf laus. Það er staðreynd að það eru miklu færri í æfingasalnum kl. 06:00 heldur en kl. 17:00. Það er því nánast hægt að ganga að því vísu að tækið þitt og lóðin séu laus. Það er einn helsti kosturinn við að æfa á morgnanna. Ég ætti því alls ekki að vera hvetja fólk til að æfa á morgnanna og uppljóstra þessu illa geymda leyndarmáli.
  2. Frábært fyrir fólk með takmarkaðan tíma. Að æfa á morgnanna er fullkomið fyrir þá sem eru uppteknir seinnipartinn og geta ekki æft á þessum “hefðbundna” tíma. Tíminn frá 06:00 til 07:30 er oftast laus og hentar fullkomlega til að æfa.
  3. Dagurinn nýtist betur. Eftir að ég fór að æfa á morgnanna finnst mér eins og að ég hafi lengt daginn og búið til auka tíma frá kl. 17:00-19:00. Ég hef eiginlega aldrei gefið mér tíma til að gera nokkurn skapaðan hlut eftir vinnu því þá hef ég verið að æfa. Núna get ég gert það sem ég vill eftir vinnu, jafnvel farið í Byko og keypt þessa helvítis málningu sem ég er búinn að vera á leiðinni að gera síðustu mánuði.
  4. Meiri keyrsla á æfingum. Flestir þurfa að mæta í vinnu eða skóla um morguninn. Tímapressan gerir það að verkum að fólk getur ekki verið að hangsa á æfingunni og þess vegna verða æfingarnar meira fókuseraðar. Minna bull og blaður. Meiri sviti og meiri árangur.
  5. Meira pump. Líkaminn minn virðist bregðast betur við því að æfa á tómann maga. Ég fæ aldrei meira blóðflæði og pump en þegar ég æfi á morgnanna, nývaknaður og óétinn. Ég fær meira adrenalín og meiri vellíðan. Það mælir allt með því að æfa á morgnanna.
  6. Testósterónið í líkamanum er mest á morgnanna og lækkar eftir því sem líður á daginn. Orkan, krafturinn og einbeitingin ætti því að vera mest á morgnanna. Af hverju ekki að nýta það?

Nú er ekkert annað í stöðunni en að skipuleggja sig, gera æfingatöskuna klára og sýna smá sjálfsaga. Ég vill samt alls ekki að of margir fari að mæta á morgnanna og fylli allar stöðvarnar á besta æfingatímanum – svo haldið ykkur bara heima.

Reykjavík, 31. ágúst 2017
-Ofurgísli, ykkar maður – maður fólksins